Fara í efni

VILL TRÚVERÐUGT SVAR

Sæll Ögmundur.
Mér þætti vænt um ef þú gætir skýrt þessa dæmalausu fléttu með/móti Icesave og þjóðaratkvæði. ps. ég hef ekki skrifað þér áður og geri ráð fyrir trúverðugu svari (t.d. að láta ríkisstjórn halda en samt halda haus) sem ég tel vera fullgilt og heiðarlegt svar.
kv. GÖG

Sæll og þakka þér bréfið. Svar mitt er að finna í skrifum mínum og yfirlýsingum allar götur frá því ég sagði af mér sem heilbrigðisráðherra. Afsögnin tengdist ekki síður vinnulagi í ríkisstjórn en innihladi Icesave samningsins - að því ógleymdu að mér finnst að erlend fjármagnsöfl verði að finna fyrir og verða vitni að sýnilegri mótspyrnu almennings gegn yfirgangi þeirra. Mér finnst við eiga mikið undir því komið að breyta vinnulagi í stjórnmálum og er ég tilbúinn að leggja mikið á mig til að svo megi verða. Það breytir því ekki að ég hef ekki viljað fella stjórnina. Þetta verður þess vissulega valdandi að afstaða mín verður mótsagnakennd á stundum. Annars vegar vil ég ekki að stjórnin falli en á sama tíma vil ég halda uppi kröfu um opin og lýðræðisleg vinnubrögð. Ríkisstjórnir undangenginna tveggja áratuga hafa byggt vald sitt á flokksræði og finnst mér að stórlega verði að draga úr því en efla þingið og virkja dómgreind hvers og eins að sama skapi.
Kv.
Ögmundur