Fara í efni

VERÐUR RÍKIS-STJÓRNINNI ÚTHÝST?

Hvernig skýrir þú fylgi ríkisstjórnarinnar, en samkvæmt skoðanakönnunum er það meira en í síðustu kosningum? Það er með ólíkindum hve mikið fylgi stjórnarflokkanna er samkvæmt könnunum sem birst hafa að undanförnu. Getur verið að þjóðin sé sátt við ríkisstjórn sem undirbýr einkavæðingu heilbrigðiskerfisins og hefur reyndar hafið þá vegferð, nú síðast með því að ákveða að úthýsa læknariturum - eða hluta hópsins - af Landspítalanum.  Ég hefði haldið að þjóðin myndi úthýsa slíkri ríkisstjórn.
Haffi

Þakka þér bréfið Haffi. þegar þú segir það rennur það upp fyrir mér hve gagnsætt og lýsandi þetta nýjasta hugtak um einkavæðingu - úthýsing - er. Það hefur aldrei þótt gott, hvað þá stórmannlegt á Íslandi að úthýsa fólki. Ég er sannfærður um að þjóðin vill ekki einkavæða heilbrigðiskerfið. Um það bera margar skoðanakannanir vitni. Fyrr eða síðar mun þjóðarviljinn birtast í skoðanakönnunum og í næstu þingkosningum er ég sannfærður um að þessari stefnu verður úthýst. Stór hópur innan Samfylkingarinnar sem enn styður flokkkinn í skoðanakönnunum mun verða viðskila við hann í næstu Alþingiskosningum, flokk sem þjónar Sjálfstæðisflokknum í þeim mæli sem Samfylkingin gerir.
Kv.,
Ögmundur