Fara í efni

VERÐUR LÁTIÐ STAÐAR NUMIÐ VIÐ ÞRIFIN?

Nú hefur stjórnendateymi ráðuneytanna rekið fólkið sem þrífur. Markmiðið er sjálfsagt sparnaður, kannski hefur einhver nefnt til umbætur og nútímavæðingu. Eða bara eitthvað til að láta þetta hljóma betur. Nú vona ég að konurnar sem þrifu þessi ráðuneyti hafi verið stórkostlega yfirborgaðar, á kjörum sem færði þeim auðæfi umfram vinnuframlag og helst að þær hafi verið óalandi og ekki húsum hæfar. Ákvörðun ráðuneytanna væri þar með réttlætanleg og ég sem skattgreiðandi fengi fullvissu fyrir að verið væri að gæta framlags míns til opinbers rekstrar. Konurnar sem missa vinnuna, sem eru víst komnar yfir miðjan aldur, hefðu þá líka átt þess kost að safna í sjóð á þessum ofurlaunum og sest virðulega í helgan stein - sáttar við hlutskipti sitt. Þó má telja líklegra að þessu sé öfugt farið. Þó það kosti eitthvað að greiða fyrir þrif hefur þetta sennilega hvorki verið mjög vel launað, né heldur stór hluti af rekstri ráðuneytanna. Eflaust má úthýsa þessu og fá tilboð utanúrbæ á lægri verði. En ætli sparnaðurinn sé mikill? Ætli konur sem komnar eru yfir miðjan aldur gangi í önnur störf? Gæti verið að kostnaður ríkisins flytjist af launalið ráðuneyta á bætur Atvinnuleysistrygginga og á sveitina að endingu? Ætli það sé markmiðið? Nú er ekkert sem segir að ráðuneytin verði að hafa starfsmenn á launakrá til að sinna stoðþjónstu eins og rekstri mötuneytis, tölvukerfa, bókhaldsskráninga, símsvörunar eða þrifum. Sé þetta hugsunarháttur og áhersla nýrra herra er eiginlega hlægilegt að láta staðar numið við þrifin. Ráðuneytin gætu í sjálfu sér úthýst öllu nema sínu kjarnastérfræðisviði við stefnumótun og tryggja að ráðstöfun opinbers fjár stuðli að almannahag. Nema hvað að ráðuneytin hafa ekki sýnt sérlega góða frammistöðu þar heldur. Það þyrfti að gera skurk þar líka. Úr því búið er að reka konurnar sem þrífa verður að túlka það annað hvort sem fádæma slaka ákvörðun sem litlu skilar, eða sem hluta af pólitíkinni „allt fyrir auðvaldið“ og hleypa einakfyrirtækjum að opinberu fjármagni. Það mun þá væntanlega ganga miklu nær ráðuneytunum áður en yfir lýkur. Seinni kosturinn er eiginlega skárri, því annars er bara verið að leggjast á þá sem minnst mega sín. Í hinu tilvikinu eru konurnar sem þrifu bara óheppnar að vera fyrstar.
Snorri