Fara í efni

Valgerður í hundrað ár?

Eldhúsdagsumræðurnar í gærkvöld voru með fjörugra móti og lét VG ekki sitt eftir liggja fremur en fyrri daginn. Hins vegar voru stjórnarþingmenn, sérstaklega Framsóknarmenn sem álfar út úr hól. Það vakti athygli mína að Valgerður Sverrisdóttir sagði að þér hefði orðið á í messunni að tala um áframhaldandi uppbyggingarstarf. Er manneskjan virkilega þeirrar skoðunar að allt sem gert er í samfélaginu sé ríkisstjórninni að þakka? Þótt ríkisstjórn síðustu ára hafi reynst afturhaldssöm er ekki þar með sagt að henni hafi tekist að stöðva allar framfarir í landinu.
Kveðja,
Lilja

Þakka þér fyrir bréfið Lilja. Þetta er góð ábending hjá þér auk þess sem ég vísaði í máli mínu til heldur lengri tíma en stjórnarsetu Valgerðar Sverssidóttur. Í ræðunni var meira að segja talað um heila öld. Orðrétt sagði í ræðunni: " Það er kominn tími til að beina íslenskri pólitík inn í annan og uppbyggilegri farveg en þann sem þessi ríkisstjórn hefur grafið? Það sem sameinar þjóðina er löngunin til að styðja góð málefni og treysta undirstöður raunverulegra framfara. Á síðustu hundrað árum hefur verið byggt upp kröftugt velferðarþjóðfélag á Íslandi. Höldum því uppbyggingarstarfi áfram, sýnum reisn og sjálfstæði í samskiptum við aðrar þjóðir. Við eigum efniviðinn til áframhaldandi framfara. Nýtum hann sem best."
Kveðja,
Ögmundur