Fara í efni

VAKNIÐ ÍSLENDINGAR!

Sæll Ögmundur ...
Ég þakka ágætar greinar á vefsíðunni þinni, annars vegar undir fyrirsögninni “BAKSTUR ORKUMÁLASTJÓRA” og hins vegar "MILLJARÐAGRÓÐI : HVAÐA LÆRDÓM MÁ DRAGA?" Þarna koma fram staðreyndir sem áríðandi er að þjóðin geri sér glögga grein fyrir!
Málið er að þeir sem ætla sér að innleiða þjóðfélag á Íslandi sem stjórnast eingöngu af “markaðslögmálinu,” auðvaldi, og að það verði eina viðmið í allri ákvarðanatöku hvort sem er hjá einstaklingum eða fyrir þjóðfélagið í heild eru í besta falli kjánar og óvitar í versta falli eitthvað miklu verra því í mínum huga er þetta beinlínis glæpsamlegt atferli. Við erum að tala um tilræði við samfélagið, íslensku þjóðina.
Mikið er gasprað um frelsi manna til að verða eins ríkir og kostur er hvernig sem farið er að því, með öðrum orðum, tilgangurinn helgar meðalið. Aldrei er vikið að því orði að eins dauði kunni að vera annars brauð. Brauð auðmanna er nefnilega á kostnað einhverra, einhver verður fátækari vegna gegndarlausrar græðgi og gróða þeirra. Einnig skal fólk vita að auðvaldið skapar frelsi fárra útvalda og samsvarandi ófrelsi fjöldans.  Jú, það má vera að menn verði ríkir, eða efnist á að selja öðrum þjónustu og vörur sem þeir telja sér hag í, sem er eðlilegt. Einnig að ríkir menn geti verið þjóðlegir og yfirlætislausir menn, en reynslan er að “mikið vill meira,” og græðgin er óseðjandi, -Það er það sem við verðum að horfast í augu við!
Markaðshagkerfi eða vísir að því hefur verið til frá örófi alda og markaður í einhverri mynd er við lýði í öllum þjóðfélögum hvað sem þau nefnast. Slíkt hagkerfi er hvorki nýtt né framandi. Við erum hins vegar að ræða um aðstæður sem skapast ef “markaðslögmálið,” gróðahyggjan og auðvaldið fær að þróast stjórnlaust í hag fárra, án tillits til hagsmuna þjóðarheildarinnar, lýðræðisins, sanngirninnar og heilbrigðrar og mannlegar réttlætiskenndar.  Við erum að ræða um blekkingar, fákeppni, einokun og græðgi sem ýtt er undir í nafni heilbrigðrar samkeppni og almannahagsmuna. Frasinn um “markaðslögmálin” í hávegum hafður, en er í raun ÖFUGMÆLI!  Við erum að ræða um gróða einstaklinga sem skapaður er án sköpunar verðmæta eða þjónustu í eðlilegu samræmi við hann. Á sama tíma þénar fjöldinn örlítið brot af þessum gróða og aðeins með því að þræla myrkranna á milli, og án þess að endar nái saman!
Í raun er “markaðslögmálið” eins og það er nú túlkað af einkaauðvaldshyggjufólki, blekking og hugarórar til að verja og réttlæta óforskömmuheit og græðgissýki þess! Maður leitar eftir stórum orðum en verður nánast orðvant
Almenningur verður að taka í taumana áður enn auðvaldið hefur stolið lýðræðinu og réttmætum eignum íslensku þjóðarinnar!  Að bíða lengur, getur reynst þjóðinni dýrt!
Það er nú í fullum gangi hjá auðvaldinu að ræna auðæfum landsins, hvort sem það er raforka, vatn eða annað,  auðæfum sem eru og eiga vera sameiginleg einkaeign allrar íslensku þjóðarinnar um ókomna tíð – að eilífu!  Vaknið Íslendingar!!!   Látið ekki blekkjast!!! Verðið ekki tómlætinu og hirðuleysinu að bráð!!!
Kveðja,
Helgi