Fara í efni

UTANRÍKISRÁÐHERRA ÍSLANDS: “FOKKIÐ YKKUR”

Ég verð að viðurkenna að ég er nánast orðlaus yfir óábyrgum bjálfahætti ráðherra, núverandi og fyrrverandi.
Sá núverandi er Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð, utanríkisráðherra sem talar á þann hátt að er niðrandi fyrir okkur sem hún er í forsvari fyrir, talar til rússneska flotans og þar með rússneskra sjóliða, að þeir eigi að “fokka sér”.
Sá fyrrverandi er svo Björn Bjarnason, einn harðdrægasti kaldastríðsmaður Íslands á sínum tíma og nú í essinu sínu á nýjum tíma þar sem kynt er undir óvild og striðsæsingum.
Í pistli sem mátti lesa á mbl.is segir hann að sendiráð Rússa sýni íslenskum stjórnvöldum lítilsvirðingu og vill að sendiherra Rússlands verði rekinn úr landi: “Þetta er nú rifjað upp þar sem enn á ný (sjái) sendiráð Rússa á Íslandi ástæðu til að sýna íslenskum stjórnvöldum lítilsvirðingu. Sendiráðið ræðst á Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og ekki í fyrsta sinn.
Á ráðstefnu um þjóðaröryggismál 22. mars tók ráðherrann sér í munn orð sem ómuðu meðal Úkraínumanna sem neituðu að gefast upp fyrir Rússum og segðu meðal annars: „Rússneski floti, þið megið fokka ykkur“. Baðst ráðherra afsökunar á orðbragðinu, enda ekki ráðherra sæmandi, boðskapurinn væri þó mikilvægur.
Vegna þessara orða sendi rússneska sendiráðið í Reykjavík frá sér yfirlýsingu 23. mars og veittist að utanríkisráðherra fyrir „dónalegt orðbragð“ (e. dirty language) og „vanhæfni“ (e. inability) íslensku utanríkisþjónustunnar til að færa sannfærandi rök fyrir afstöðu sinni og til að skilja hvað sé að gerast. Hótar sendiráðið að taka mið þessum „stefnumarkandi“ viðhorfum við mat á afstöðu sinni í samskiptum við íslenska aðila.
Hér hefur árangurslaust verið lagt til að rússneska sendiherranum verði vísað úr landi. Langlundargeð utanríkisráðherra og embættismanna hennar í garð þessara oflátunga rússneska stríðsherrans sem nú er eftirlýstur af alþjóðasakamáladómstólnum vekur vaxandi undrun. Þeir traðka á málfrelsi annarra og ganga æ lengra sé ekkert að gert.”
Orð Björns Bjarnasonar metur hver fyrir sig. Þórdís Kolbrún Gylfadóttir Reykfjörð talar hins vegar sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands fyrir hönd landsmanna. Ég frábið þetta tal og fyrirverð mig fyrir að hafa slíkan talsmann.