Fara í efni

Utanríkisráðherra á aldrifinu í New York

Greinilegt er að nú mæðir mikið á hnjánum á brókum utanríkisráðherra sem staddur er á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York. Morgunblaðið greinir frá því hvernig hann eltir ráðamenn í Bandaríkjunum á röndum í því skyni að halda eftir leifunum af bandaríska hernum á Miðnesheiði. Þeir fá hvergi frið, þeir komast varla á klósettið án þess að utanríkisráðherra Íslands fylgi þeim eftir eins og skugginn. Leyfum Halldóri ráðherra að segja sjálfum frá: “Ég fór í móttöku hjá Bush Bandaríkjaforseta í gær (þriðjudag) og hann gaf sér góðan tíma að tala við mig. Við ræddum um varnarmálin og af því samtali er ljóst að hann mun halda áfram að fylgjast með málinu og gerir sér grein fyrir viðkvæmni þess.” 
Já, skilningurinn og vinskapurinn er yfir og allt um kring og forseti Bandaríkjanna hefur auðvitað ekkert annað en gaman af öllu saman enda hundaeigandi og kannast vel við hegðunarmynstrið og trygglyndið gagnvart húsbóndanum.
Halldór hefur einnig rætt við Powell utanríkisráðherra á salernum víðs vegar í veislusölum New York, sem og Elísabetu Jones aðstoðarráðherra, en samkvæmt áreiðanlegum heimildum Þjóðólfs haldið sig einkum við fatahengin í þeim tilvikum. Og jafnan mætir Dóri litli velvilja og eftir allan eltingarleikinn túlkar hann stöðuna svo: “Ég er viss um að málið mun verða unnið í vinsamlegu andrúmslofti á grundvelli gagnkvæmrar virðingar en ekki með einhliða hætti”. Já, forsetinn okkar, hann Bush, vill gagnkvæmni og einlæga vináttu. Þá kom það, að sögn Halldórs, skýrt fram í samtölum við Powell og Jones að “forsetinn sé áhugasamur um málið og að fyrir liggi skýr pólitískur vilji af forsetans hálfu að leysa það.” Sem sagt, alveg fullkomnað og dásamlegt og naumast hægt að biðja um mikið meira.
Já, Morgunblaðið lýgur ekki og sýnir svo ekki verður um villst að Halldór Ásgrímsson er aldeilis stoltur af sjálfum sér þessa dagana. En hvað með þjóðina sem hann er fulltrúi fyrir? Getur hún verið stolt? Ætlar hún að halda áfram að borga hnésbætur á brækur þeirra sem nú ráða ríkjum í Stjórnarráðinu? Eða vill hún að aðrir – og þá þeir sem eru með annað göngulag og fulla sómatilfinningu gagnvart hernaðarhaukunum í Washington - taki við taumunum?
Þjóðólfur