Fara í efni

ÚR TÖLVUPÓSTINUM Í MORGUN

Jón ritstjóri Tölvupóstsins lumar á ýmsu athyglisverðu í blaðinu í dag. Hann hefur gefið mér góðfúslegt leyfi til að nýta mér efnið að vild enda er hann mágur minn og hef ég svo sem ýmislegt á hann ef hann lætur ekki að stjórn. Ég vil leyfa lesendum síðunnar að gægjast í bréfið “Amma skrifar Árna sínum” sem hann mágur minn veiddi í netið í gær og áframsendi mér:

Sæll Árni minn.
Voðalegt er nú ástandið í samfélaginu og nú svo komið hún amma þín er ekki einu sinni óhult. Í eftirmiðdaginn þegar ég var að aka inn í Bónus í Skeifunni stöðvaði lögreglan mig enn og aftur og bar upp erindi sitt; bentu mér á að bifreiðin væri ljóslaus og spurðu hverju það sætti. Af samtalinu fannst mér eins og þeir vissu hvert ég færi að fara, og var ég þó rétt lögð af stað að heiman frá mér, en þeir spurðu þó eins og venjulega um ferðir mínar og hvert nú væri ferðinni heitið. Varðandi ljósabúnaðinn sagði ég þeim að ég þyrfti nú ekki að segja þeim það oftar að ég þyrfti ekki á ljósum að halda um hábjartan dag og ég væri aldrei á ferðinni þegar farið væri að rökkva. Þrátt fyrir fullnægjandi skýringar mínar skrifuðu þeir enn einn sektarmiðann á mig og er þetta nú búið ganga svona í fimm skipti á tveimur mánuðum.
Er ekki einsýnt, Árni minn, að þessi afskipti lögreglunnar tengjast vikulegum innkaupaferðum mínum í Bónus? Og er nú orðinn lítill sparnaðurinn að skipta við þá ágætu feðga ef lagðar eru á mig sektir fyrir það eitt á aldeilis fráleitum forsendum. Hvað leggur þú til Árni minn, er ekki skynsamlegast ég láti bara undan þrýstingnum og fari að skipta við Nóatún svo að lögreglan láti mig í friði? Mér skilst að Davíð geri öll sín innkaup þar.
Fyrirgefðu mér svo Árni minn, ég skuli vera íþyngja þér með þessu öllu en mér finnst bara ástandið í þjóðfélaginu okkar orðið þannig að ekki sé á eldra fólk leggjandi. Meira að segja Jónas frá Hriflu, sem ég taldi nú alltaf haldinn einhverri alvarlegri veilu, og það ofan á aðsóknarkenndina, hann er nú í minningunni orðinn að fannhvítum himnaríkisengli í samanburði við þann skríl sem nú veður uppi og beitir, að því er virðist, meira að segja blessaðri lögreglunni fyrir sig.
Kær kveðja,
amma.

 Já svona er nú ástandið á  Íslandi í dag.

Sending frá Þjóðólfi