Fara í efni

UNDARLEGAR SPURNINGAR?

Hvernig stendur á því Ögmundur að þú spyrð svona einkennilegra spurninga á síðunni þinni - sem er væntanlega hugsuð almenningi til aflestrar. Hvað er einkennilegt við spurninguna þína - "Hvers vegna stóð Ísland ekki með mannréttindum" og er um hvers vegna Ísland sat hjá við afgreiðsu vatnsréttindanna hjá SÞ. Jú, þú hefur beinan aðgang að bæði mannréttindaráðherra (Jóhönnu held ég) og utanríkisráðherra (Össur) og getur spurt þau beint og krafist svars án málalenginga eða útúrsnúninga! Við alm. lesendur þínir höfum ekki þennan kost. Það væri reyndar fróðlegt að fá að vita hvernig tekin er ákvörðun í svona málum? Var talað við Jóhönnu eða er þetta eitthvert brall Össurar og fulltrúa hjá SÞ? Erum við í vasa einhverra og þá hverra? Að öðru máli - eg er búinn að skrá mig a.m.k. tvisvar á póstlistann þinn en fæ engin fréttabréf? Skrái mig nú í 3. sinn og sé til hvað skeður!
Ragnar Eiríksson

Sæll og þakka þér bréfið. Vissulega gæti ég hringt í viðkomandi aðila og fengið svör þeirra. Mér finnst hins vegar þetta ekki eigi að gerast á persónulegum nótum. Hér er verið að fjalla um ákvarðanir og yfirlýsingar sem snerta okkur öll og eru gefnar úr fyrir hönd okkar allra. Þess vegna finnst mér að spyrja eigi opinberlega og krefjast opinberra svara.  Annars væri ég kominn í þá stöðu að túlka orð og athafnir annarra. Það eiga viðkomandi að gera sjálf.
Þarf að athuga þetta með fréttabréfið. Fróðlegt væri að heyra frá öðrum um þetta. Sjáum hvað gerist þegar sent verður út fréttabréf í næstu viku. Láttu vita ef það berst ekki.
Kv.
Ögmundur