Fara í efni

Ummæli um forsetaembættið ekki rökstudd?

Sæll Ögmundur! (Þetta er ekki fyrirspurn frá mér heldur álitsgjöf). Ég er nú svo aldeilis hissa! Ég sperrti eyrun þegar þú svaraðir spurningu fréttamanns Sjónvarpsins um það álit þitt að kónga- og auðmannadekur hafi keyrt úr hófi fram á Bessastöðum og hélt að þú myndir útskýra hvað þú ættir við. En - ég varð engu nær. Mér finnst að þú eigir að rökstyðja mál þitt og ekki að slá svona sjónarmiðum fram nema að nefna dæmi svo maður geti vitað hvað þú átt við. Að mínu áliti stendur forsetinn sig vel í þeim verkum sem mér finnst við þurfa forseta til að sinna, þ.e. að vera fulltrúi þjóðarinnar út á við. Ég hef persónulega enga þörf fyrir forseta sem sameiningartákn eða samnefnara þjóðarinnar en ég tel að við þurfum toppfígúru til að sinna kóngum og þjóðhöfðingjum heimsins og Ólafur er verðugur fulltrúi okkar á þeim vettvangi að mínu mati.
Kveðja,
G.J.

Komdu sæl.

Ég þakka þér bréfið. Í sjónvarpsfréttum ræður maður litlu um hvað birt er úr viðtölum sem tekin eru. Í þessu tilviki var tekið við mig langt viðtal en birtur úr því lítill bútur. Ég hef margoft lýst skoðun minni á þessum málum í blaðagreinum, hér á vefsíðunni, í ræðum á Alþingi og víðar. Á vefsíðunni er grein (hér) sem varð kveikjan að umræðunni síðustu daga og vísa ég þar í lokin í fyrri skrif sem sýnishorn. Þú segir að við þurfum "toppfígúru" til að sinna kóngum og þjóðhöfðingjum heimsins. Það er vissulega rétt að forsetanum er ætlað gestgjafahlutverk. Í sjónvarpsviðtalinu tók ég fram að vissulega ættum við að taka vel á móti gestum, þar með kóngum og öðrum þjóðhöfðingjum. Ég sagði hins vegar að þetta væri spurning um áherslur. Hvað auðmennina áhrærir held ég að það liggi nokkuð í augum uppi hvað við er átt, þ.e. sú áhersla sem lögð hefur verið á mikilvægt hlutverk hinna nýju auðmanna Íslands í umsvifum þeirra bæði hér innanlands og ekki síður á erlendum vettvangi (og geri ég þar greinarmun á nýsköpun í atvinnustarfsemi og markaðssókn annars vegar og tilraunum til að gleypa verðmætar þjóðareignir fátækra ríkja eins og nú er að gerast á Balkanskaganum og almennt fjármálabrask á heimsvísu, hins vegar), viðhafnarboð fyrir bandaríska kauphallarmenn á Bessastöðum og samskipti við auðkýfinga úr Austurvegi og svo framvegis. Um það sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur vel gert í embætti gæti ég líka haft langt mál og þá ekki síður um hitt, hvað ég teldi hann geta gert frekar í embætti sínu sem forseti Íslands. Ætli ég reyni ekki að hafa það næsta vers.

Kveðja,
Ögmundur