Fara í efni

Um breytta tíma...og nýjan fána

Fyrir mörgum árum fengu Íslendingar sinn eigin fána sem var í takt við tíðarandann, hann er hinsvegar barn síns tíma. Hann hentaði vel þjóð sem barðist hatrammlega fyrir sjálfstæði sínu og sótti orku til eldsins sem ólgaði í jörðu niðri, sjávarins sem lamdi strendurnar sundur og saman og íssins sem braust fram af fjallatoppum með gríðarlegum hamförum. Nú er tíðin hinsvegar önnur, Íslendingar eru hættir að berjast fyrir sjálfstæði sínu og huga frekar að því að markaðssetja sig sem hreina þjóð. Nú hefur einnig komið í ljós að íslenska þjóðin er algerlega getulaus á alþjóða vettvangi, hvort heldur sem er á sviði íþrótta eða pólitíkur. Hér er rekin uppsleikingarstefna við stórþjóðir og nafn vors fagra lands er orðað við stríð á fjarlægum slóðum, einungis til að tryggja viðskiptahagsmuni og áframhaldandi hersetu á landinu. Í ljósi þessa og mun fleiri ástæðna sem óþarfi er að tíunda í bréfi þessu vil ég bera fram þá hugmynd að Íslendingar geri sér bragð úr ellefta boðorðinu og skipti út þeim bláa fyrir einlitan hvítan fána. Fáni þessi myndi sóma sér vel uppi í Kárahnjúkum þar sem hann myndi blakta við hlið fána stórfyrirtækja á borð við Alcoa og Impregilo, hríðskjálfandi hírudregnum portúgölskum verkamönnum og sökkvandi hálendi til mikils sóma. Við myndum spara stórfé með því að senda einungis fánabera á stórmót í íþróttum sem myndi með fánanum sýna vanmátt Íslands gagnvart stærri þjóðum. Úrslit í slíkum leikjum eru hvort eð er þekkt fyrirfram og getum við því sparað okkur það ómak að spila leikina. Af þessu má sjá að kostir hvíts fána eru gríðarlegir og er þetta möguleiki sem vert er að hugsa um. Einnig myndi það vera gleðileg sjón að sjá hinn íslenska her marséra á vígvöllinn með hvítan fána í broddi fylkingar, þeir gætu tekið einn hring og síðan heim aftur, án nokkurs mannfalls. Íslenski herinn myndi standa öllum herjum heims framar hvað mannfall og hugsjónir varðar. Ég vona að þú sjáir þér fært að svara þessu brýna erindi mínu og jafnvel bera það upp við þingheim. Með bestu kveðju,
takk fyrir.
Glói Gjallandason

Heill og sæll Glói.
Ekki mun ég bera erindi þitt upp við þingheim en hér með geri ég það gagnvart lesendum síðunnar.
Kveðja, Ögmundur