Fara í efni

UDE AT SVÖMME

Sæll Ögmundur.
Allan þann tíma sem Jón Sigurðsson, formaður Framsóknarflokksins, hefur verið á sundi í laug í öðru kjördæmi og í hvert skipti sem hann hefur bætt á sig enn einni samlokunni hef ég velt fyrir mér skilaboðunum í auglýsingunni. Og ég viðurkenni að ég er alveg rugluð. Grettissundið, hinn sterki, gæti verið stef, en þá þvælist samlokan fyrir. Samlokan tákn óhollustunnar. Formaðurinn syndir gæti verið tilvísun í hinn sterka leiðtoga, t.d. Maó formann sem sagður er hafa synt jafn lengi í Gula-fljóti og búast má við að Jón syndi nú í Kópavogslauginni fyrir kosningarnar. Kannske eru auglýsingagaurarnir að gera grín að formanninum á laun og vilja vísa til þess að formaðurinn sé úti að synda (sem skýrist svo: at være ude at svömme at være i en usikker situation, þ.e. að hafa ekki fast land undir fótum, eða vera óöruggur) og hafi ekki fast land undir fótum og sé alls ekki á réttum vettvangi með því að kasta sér útí pólitík. Þetta eru alls ekki ólíkleg skilaboð frá þeim 13 manna hópi sem nú fer með völdin í Framsókn. Hann á kannske harma að hefna. Mér gengur þó illa að koma samlokunni inn í þetta dæmi. Óholl er hún, en kannske eru menn að undirstrika með henni þjóðlegheit.
Kannske maður ætti að lesa myndlegu hlið auglýsingarinnar svona: Íslendingar (samlokan) takið sénsinn. Kjósið sterkan leiðtoga til forystu (Maó formaður), sterkan leiðtoga sem óttast ekkert (Grettir sterki) sem tryggir ykkur áframhaldandi fjör í Framsókn (at være ude at svömme).
Annars eru kaskeitin sem flokkarnir setja upp núna allt í senn skemmtileg og áhugaverð pólitískt. Sjálfstæðisflokkurinn virðist vera orðinn svo þreyttur að hann hefur ákveðið að leggja ekki í mikla hugmyndavinnu heldur taka upp sem megin slagorð afbrigði af gömlu slagorði, sem Alþýðuflokkurinn notaði þegar hann vann stærsta kosningasigur sinn, 1978, þ.e. Nýr flokkur á gömlum grunni. Kópían hljómar svo í búningi Sjálfstæðisflokksins: Nýir tímar – á traustum grunni.
Ég ber mikla virðingu fyrir mörgum kjósendum Sjálfstæðisflokksins sem ég þekki, og mér þykir afskaplega vænt um vinkonur mínar í vinahópnum sem fylgja Sjálfstæðisflokknum að málum, en eins og ég sagði þeim í fyrri viku. “Þið getið ekki ætlast til að manni finnst eitthvað nýtt við flokk sem hefur verið við völd í 16 ár samfleytt” og ég hugsaði með sjálfri mér að ekki væri hann traustur grunnurinn, t.d. í efnahagsmálum sem þjóðinni er ætlað að byggja framtíð sína á. Hvatvíst barnabarn mitt er þeirrar skoðunar að Sjálfstæðisflokkurinn sé búinn að vera svo lengi í ríkisstjórn að hann þurfi tvær hækjur og ekki eina til að styðjast við eins og hann hefur gert síðustu sextán árin.
Hugurinn leitaði norður í Öxnadal þegar ég sá að Sjálfstæðisflokkurinn reynir nú að höfða inn á miðjuna með lánsslagorði gamla Alþýðuflokksins og mér datt í hug:

allt er nú sem orðið nýtt,
ærnar, kýr og smalinn.

Hverjar skyldu nú vera ærnar, kýrnar, og smalinn í auglýsingum Sjálfstæðisflokksins?
Ég læt þér eftir að spá í það Ögmundur!
Kveðja,
Ólína