Fara í efni

TÖKUM UPPLÝSTA ÁKVÖRÐUN

Við systkinin ætlum að mæta á kjörstað næsta laugardag þar sem tvö okkar munu kjósa í fyrsta skipti til Alþingis. Þó framboðin séu ósammála um margt, virðast þau við fyrstu sýn vera sammála þegar kemur að náttúru Íslands. Stefna þeirra er að nýta auðlindir náttúrunnar með sjálfbærni að leiðarljósi. En það er þó mjög greinilegur munur á því hvernig flokkarnir túlka orðið sjálfbærni.

Við viljum vekja athygli á þessum mun.

Sjálfbærni og vatnsaflsvirkjanir í jökulám

Samkvæmt skilgreiningu er sjálfbærni, eða sjálfbær þróun, sú þróun sem mætir þörfum samtímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða á að mæta þörfum sínum. Aukinn skilningur á mikilvægi sjálfbærni er ein af ástæðunum fyrir því að gríðarleg áhersla hefur verið lögð á endurnýjanlega orkugjafa um allan heim og bak við þessi rök skýla virkjanasinnaðir íslenskir stjórnmálamenn sér.

En það er eitt sem gleymist.

Vatnsaflsvirkjanir í jökulám eru ekki endurnýjanlegir orkugjafar, nema til skamms tíma, sbr. Kárahnjúkavirkjun og 100 ára áætlaðan líftíma hennar (önnur afleiðing þeirra framkvæmda er stórkostleg eyðilegging á lífríki Lagarfljóts). Þarna er því alls ekki um sjálfbærni að ræða.

Eins og sést á grafinu hér að neðan jókst raforkunotkun á Íslandi um rúm 300% milli áranna 1990 og 2011. Til samanburðar má nefna að notkun á raforku jókst u.þ.b. 16% á þessu tímabili í Danmörku og 15% í Noregi.
[Sjá graf: http://grenlaekur.com/?p=477#comments ]

Ákvarðanir um margföldun á raforkuframleiðslu á Íslandi voru vafalaust teknar í góðri trú og rökin fyrir vatnsaflsvirkjunum í jökulám voru m.a.:

  1. Aukin landsframleiðsla.
  2. Fjölgun íbúa og starfa á landsbyggðinni.
  3. Lítil umhverfisáhrif.

Lærum af mistökunum

Reynsla síðustu ára hefur sýnt okkur að:

  1. Ef raunverulegur vilji er til þess að auka landsframleiðslu og skapa verðmæti þá er stóriðja s.s. vinnsla á áli, alls ekki arðvænlegasti kosturinn.
  2. Fólksfækkun hefur verið á landsbyggðinni þvert á loforð og öfugt við aukna raforkuframleiðslu (Sjá graf).
  3. Vatnsaflsvirkjanir í jökulám eru ekki umhverfisvænar. Þær raska vistkerfum, hafa stuttan líftíma og geta því aldrei talist til sjálfbærrar nýtingar á náttúrunni.

Þar sem þessar staðreyndir liggja fyrir, skiljum við ekki hvernig í ósköpunum ákveðnir frambjóðendur og flokkar geta enn þann dag í dag barist fyrir frekari stóriðju á Íslandi.

Við verðum að fara vel með það sem við eigum. Ísland er stútfullt af tækifærum, notum þau og gerum það skynsamlega. Virði óspilltrar náttúru mun bara aukast með tímanum.

Tökum upplýsta ákvörðun, látum náttúruna njóta vafans og kjósum flokk sem raunverulega styður sjálfbærni og tekur afstöðu á móti frekari stóriðju.

Gleðilegt sumar,
Guðlaug Erlendardóttir nemi við Verzlunarskóla Íslands
Steinn Orri Erlendsson stúdent frá Verzlunarskóla Íslands
Leifur Bjarki Erlendsson verkfræðinemi við DTU

Sjá vefsíðu; http://grenlaekur.com/?p=477#comments