Fara í efni

Tillaga um sýningu fyrir Gallerí Landsvirkjun!

Landsvirkjun hefur staðið fyrir ötulu sýningarhaldi á starfsemi sinni á undanförnum árum og einnig gert vel við myndlistarmenn þjóðarinnar með því að skapa þeim sýngaraðstöðu í stöðvarhúsum sínum. Tugþúsundir landsmanna hafa notið framtaks Landsvirkjunar, fræðslu, listrænna viðburða og veitinga.            
Nýjasta kynningarframtak fyrirtækisins er í Végarði í Fljótsdal en þar hefur það komið á fót þrívíddarsýningu um fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun. Allt er þetta gott og gilt og vona ég að Landsvirkjun haldi ótrauð áfram í kynningarstarfsemi sinni og sýningarhaldi fyrir landsmenn. Vel væri til að mynda þegin sýning á vinnuaðstæðum starfsfólks samstarfsaðilans Impregilo, aðbúnaði öllum, launaseðlum innlendra og erlendra starfsmanna, ráðningarsamningum og fleiru. Upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar hefur jú sagt og vonandi réttilega að fyrirtæki geti ekki búið sér til ímynd, þau geti einungis haldið uppi kynningu á starfsemi sinni. Hér með skora ég á Landsvirkjun að kynna nú ítalska samstarfsaðilann sinn, Impregilo. Varla er neitt að óttast í þeim efnum ef marka má hið fornkveðna sem segir einmitt svo: Líka sem einn er, eins vini fær hann.
Þjóðólfur

Heill og sæll Þjóðólfur
Þakka þér fyrir bréfið. Mér þykir þetta góð hugmynd. Impregilo hefur víða staðið  í stórframkvæmdum á undanförnum árum og áratugum og legg ég til að sérstök rækt verði lögð við að kynna framgöngu fyrirtækisins þar sem það hefur komið við sögu. Ég hef reynt öðru hvoru í ræðu og riti - m.a. hér á heimasíðunni  - að  koma upplýsingum um Impregilo á framfæri. Sérstaklega athyglisverð þótti mér skýrsla sem breska þingið lét vinna um tengsl breskra fyrirtækja við fjölþjóðleg fyrirtæki þar sem pottur þótti vera brotinn. Þar var Imregilo oft nefnt á nafn. Ég held að sýning af því tagi sem þú stingur upp á gæti orðið mjög áhugaverð og trúi ég ekki öðru en Lndsvirkjun  taki hugmynd þinni vel. Hér er tilvísun í umfjöllun þar sem vikið er að ofangreindri skýrslu breska þingsins: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/impregilo-breska-thingid-mutur-og-spilling
Með bestu kveðju,
Ögmundur