Fara í efni

Þeir láta flagga sér

Fyrir svo sem eins og fjörutíu árum heyrðum við fyrstu bítlalögin leikin í Útvarpinu og allt í einu varð eins og framtíðin yrði áþreifanlegri. Við settum upp bleikan varalit stöllurnar og löbbuðum í bæinn á bleikum drögtum og vorum sjálfstæðar. Stundum dróst fóðrið niður undan drögtunum og stundum rann undirpilsið niður þannig að það flaggaði eins og þetta var kallað. Mér datt þetta í hug, Ögmundur, þegar ég sá þrjá fyrrverandi ríkisbankastjóra láta flagga sér í Morgunblaðinu í morgun. Þeir voru leiddir fram eins og aligrísir til slátrunar og látnir vitna um þá efnhagslegu upplausn sem af hlytist ef kvótaflokkararnir héldu ekki meirihluta sínu á Alþingi. Fyrstur er Bjarni litli Ármannsson sem í upphafi vann sér það eitt til frægðar að forvalta lánum Fiskveiðasjóðs sem öll voru með fyrsta veðrétt í þeirri auðlind sem var undirstaða neyslusamfélags 20. aldarinnar á Íslandi. Á undan honum hafði engum tekist að tapa neinu á að sjá um innheimtuna hjá Fiskveiðasjóði. Menn endurgreiddu lán sín og greiddu þjónustugjöldin jafn örugglega og félagsgjöldin sem runnu smurð til Landsambands íslenskra útvegsmanna. Annar er Halldór Kristjánsson sem hefur setið og staðið eins og ágætur framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins hefur boðið honum síðan þremur bankastjórum var stökkt á flótta úr Landsbankanum fyrir nokkrum árum. Þriðji Sólon Sigurðsson sem kom nokkuð við sögu þegar hæst risu umræður um einhverja gestabók í Lundúnaíbúð Búnaðarbankans sem fannst ekki fyrir fjórum eða fimm árum og hefur víst ekki fundist enn. Um alla má lesa nánar í greinaflokki Agnesar Bragadóttur sem umtalaður varð fyrir ekki svo löngu síðan. Þeir létu valdakerfi íhaldsins og handlangara þess flagga sér eins og hver önnur undirpils á okkur smápíunum fyrir fjörtíu árum. Og miklir andans menn og skríbentar hafa farið sömu leið. Leiðarahöfundur fréttabréfs starfsmanna Útgerðarfélags Akureyringa gerði misheppnaða tilraun til að hræða starfsmenn fyrirtæksins til fylgis við Sjálfstæðis-og Framsóknarflokk. Ég velti fyrir mér Ögmundur af hverju menn taka sér þetta grímulausa vald og af hverju misbeita þeir því? Hafa menn aldrei heyrt af hverju það voru kennarar sem í öndverðu völdust til forystu í verkalýðsfélögunum? Vita menn ekki að þeir voru þeir einu sem ekki var hægt að reka fyrir að halda úti verkalýðsfélagi af því þeir voru æviráðnir og voru ekki í þeim skilningi háðir duttlungum, skoðunum og hagsmunum atvinnurekandans? Læra menn ekki í viðskiptadeildinni hans Ágústs Einarssonar að flokksfélagar hans þurftu fyrir áttatíu árum að berjast gegn því að menn kysu með handauppréttingum á opnum kjörfundi  til að tryggja frelsið til að kjósa með leynilegri atkvæðagreiðslu? Á þeirri tíð fólst frelsið í að fá að vera einn í kjörklefanum. Hvað heldurðu, Ögmundur, verða ekki eftirmál af hörkunni sem fram hefur komið af hálfu íhaldsins í kosningabaráttunni? Þarf ekki verkalýðshreyfingin öll að hugsa sinn gang í ljósi þess sem gerðist í frystihúsinu á Akureyri? Þarf verkalýðshreyfingin ekki að fara að hnykla vöðvana í samskiptum við bankastofnanir landsins og beita til dæmis afli lífeyrissjóðanna gegn tilraunum til skoðanakúgunar. Ætli það dytti ekki eitthvað niður á honum gengið Bjarna Ármannssyni ef verkalýðshreyfingin kenndi honum aftur það sem hann hefur gleymt úr æsku – hreyfingarinnar? Það sem hryggir mig meira en þjónkun bankamanna við hið pólitíska vald er að sjá þá á hnjánum sem sjá um leiðara og ritstjórnarskrif á Morgunblaðinu. Aldrei hefur þjónkunin á þeim bæ komist í það hámark sem nú hefur verið náð. Það er í sjálfu sér sorglegt, en sorglegra þar sem menn sjá þar glitta í uppgjöfina fyrir Fréttablaðinu. Uppgjöf Morgunblaðsins fæli í sér hrun íslenskra fjölmiðla. 
Ólína

Heil og sæl Ólína.
Þakka þér fyrir bréfið. Þú spyrð margra spurninga. En í bréfi þínu er þeim í reynd öllum svarað. Ég tek undir með þér, að verkalýðshreyfingin þarf að koma í veg fyrir að forstjóraveldinu takist með yfirgangi sínum að skrúfa Íslandssöguna til baka um hundrað ár. Ég vék lítillega að þessu í ræðu sem ég flutti sl. fimmtudag og er að finna hér á síðunni. Þar kemur Sigurður Líndal lagaprófessor einnig við sögu.
Kveðja,Ögmundur