Fara í efni

ÞEGAR ORÐIN ELTA MENN UPPI

Heill og sæll Ögmundur.
Illt er til þess að vita að jafn góður drengur og þú ert, þurfir nú lögregluvernd og lífverði. En ég, eitt nóboddí í öskustó hrunsins, tel það ekki eftir mér að að minna þig þá á leiftrandi snjöll orð "spámannsins" Steingríms ... sem mætir nú sjálfum sér á leiðinni út, en kannast samt ekkert við sjálfan sig, því um ríkisstjórn Geirs, Jóhönnu og Össurar sagði Steingrímur orðrétt á dv.is 18. mai 2009: „Hún einangraðist, lokaðist af og réð sér lífverði. Slíkt gat aldrei haldið áfram. Það hafði myndast gjá milli þjóðfélagsins og ríkisstjórnarinnar. Það hefði orðið erfitt fyrir hvaða ríkisstjórn sem vera skal að sitja við þessar aðstæður. Það var aldrei spurning um hvort heldur hvenær kosningar yrðu. Þær voru líka óumflýjanlegur hluti af endurreisninni. Það þurfti að gera málin upp og kjósa. Þetta hlaut alltaf að fara svona fyrr en seinna."
Þetta er hárrétt lýsing hjá "spámanninum" Steingrími, en undarlegt er að hann sjái það ekki sjálfur, að öll þessi orð gilda einnig um ríkisstjórn Jóhönnu, Össurar og ... haltu þér nú fast Ögmundur minn ... hans sjálfs.
Er ekki kominn tími til að þessum ósköpum linni? Lífverðir og alles, en varla uber alles? Ég trúi ekki öðru en að svo vænn drengur sem þú ert, amk. innvið beinið Ögmundur minn, sért mér sammála að nú sé tími til kominn að virkja lýðræðið og boða til kosninga. Það sagði amk. foringi þinn, sem hangir þó enn á beininu sem hundur á valdasjúku roði.
Jón Jón Jónsson