Fara í efni

"Þannig að þú ert sáttur......"

Hann lagði fram frumvarp um fjölmiðla í apríl en þurfti að leggja það til hliðar. Hann lagði fram nýtt og menn neyddust til að breyta því nokkrum sinnum til að greiða úr verstu flækjunum. Þegar forseti Íslands neitaði að skrifa undir brást hann illa við og glitti þá í gamlan stjórnmálamann. Hann lét breyta málinu nokkrum sinnum að kröfu hófstilltari manna og var svo að lokum sendur heim með gjörning sinn eins og sprungin púðurkerling. Þegar svo fjölmiðlarnir grilluðu fráfarandi forsætisráðherra á tröppum stjórnarráðsins og vörn hans var sú ein að halda fram að forsetinn hefði ráðist á Alþingi Íslendinga þá spurði einhver fréttamaður Sjómvarpsins bljúgur: "Þannig að þú ert sáttur...?" Svarið gaf sig fyrirfram eins og svo oft þegar Sjónvarpið spyr forsætis- ogutanríkisráðherra þessa dagana. Mér finnst það ástand uppi nú Ögmundur að spurningar ákveðinna fjölmiðla sem lagðar eru fyrir ráðherrana tvo segi meira um vanda fjölmiðlanna en bæði ársreikningar þeirra og fjölmiðlaskýrslur. Hvað finnst þér Ögmundur, hvernig hyggst þú og þinn flokkur stuðla að því að fréttamennskan og fjölmiðlarnir standi sig gagnvart valdinu í þjóðfélaginu bæði pólitíska valdinu og því peningalega? Hvernig vilt þú tryggja að við fáum hér góða og gagnrýna fjölmiðla, þannig að við getum líka orðið sáttar?
Ólína

Ágæta Ólína.
Ég þakka þér bréf þitt sem í rauninni krefst mjög efnisríks svars. Ég ætla þó á þessari stundu að segja það eitt að mér finnst spurning þín mjög mikilvæg. Ég hef í gegnum árin verið mjög eindreginn fylgismaður útvarps í almannaeign því ég tel að eignarhald geti skipt máli. Almannaútvarp á að reka óháð bisnisshagsmunum og á óhlutdrægan en jafnframt gagnrýninn hátt, þ.a.e.a.s. þegar pólitík og þjóðfélagsmál eru annars vegar. Rekstrarformið  - útvarp í almannaeign - gefur þessa möguleika. En þá þarf líka að nýta þá í þessa veru!. 
Á undanförnum árum hef ég margoft gagnrýnt RÚV fyrir að láta dagskrá stjórnast um of af auglýsingahagsmunum, sbr. kostun, og þá hef ég gagnrýnt fréttamenn fyrir að láta valdamenn komast upp með einleik en grófustu dæmin eru svokölluð drottningarviðtöl þar sem einkum forsætisráðherra og utanríkisráðherra hafa komist upp með að dosera eins og malandi kettir frammi fyrir alþjóð. Það er þess vegna mikilvægt viðfangsefni að halda Ríkisútvarpinu við efnið.
Ég er þeirrar skoðunar að stjórnmálaflokkarnir eigi að eiga aðkomu að stjórn RÚV með tilnefningum í útvarpsráð en þar þurfi að koma fleiri aðilar til svo ekki myndist pólitísk stýring á stofnuninni. Það er sitt hvað að koma sjónarmiðum að, annað að stjórna.
Á sínum tíma veitti ég formennsku nefnd sem fékk það verkefni að endurskoða útvarpslögin og þar með yfirstjórn RÚV. Því miður var ekkert gert með þessar tillögur því stjórnarskipti urðu fljótlega eftir að þær voru fullgerðar og ríkisstjórnir undir forsæti Sjálfstæðisflokksins settust að í Stjórnarráði Íslands. Þessar tillögur er ég nú að skoða að nýju og skal gefa þér fyllra svar Ólína að þeirri skoðun lokinni. Að sjálfsögðu mun ég jafnframt horfa til reynslu undangenginna ára.
Kveðja,
Ögmundur