Fara í efni

Þankar á vori

Það er farið að vora og dag að lengja, og þótt hægt sé að vera sammála draugnum að skemmtilegt sé myrkrið, þegar setið er í heitri og uppljómaðri stofu með skemmtilega bók eða eitthvað annað dundur, þá er vorið indælt og þótt kalt sé er það  boð um sumar og vonandi hlýindi.  Í morgunsárið er hægt að horfa á sólina roða Hengilinn og á kvöldin er Snæfellsjökull farinn að dilla sér í kvöldroðanum.  Ekkert til að ergja sig yfir, allt í lukkunnar velstandi.
Nema hvað,  þegar Davíð bregður sér af bæ hringir Bush í hann að spyrja almæltra tíðinda og inna hann eftir hvort íslendingar séu ekki ennþá jafn vissir um að Saddam sé skúrkur með fullar skúffur af gereyðingarvopnum og að líf þessara bandarísku dáta sem dáið hafa fyrir málstaðinn hafi ekki verið til einskis.  Skítt með þessa íraka sem hafa dáið, eða eiginkonur og börn sem gráta  í báðum löndum.
Og við erum glöð yfir staðfestu Halldórs og trúmennsku hans að gæta þess að þessar fjórar óvopnuðu þotur sem bandaríkjamenn hafa lagt á Keflavíkurflugvelli verði geymdar þar til framtíðar.  Vonandi verða þyrlurnar líka kyrrar á milli þess sem skroppið er með þær til Íraks, líklega til að ná í sennep eða til annara heimssögulegra aðgerða.
Björn okkar vakti líka ánægju þegar hann lýsti því yfir í sjónvarpi að hans aðalstyrkur væri staðfesta.  Hann sýndi staðfestu með að fylla ekki Hæstarétt af  gömlum kerlingum heldur af nýju blóði, forsætisráðherrablóði.  Það eykur líka öyggi okkar að hann skuli afráða að stækka sérvíkingasveitina og vopna hana betur, þetta gæti verið pínu pons her og Björn góður að finna 250-300 milljónir til þessa   Hver var að væla um 500 milljónir sem öryrkja vantar, það vita hvort sem er allir að þeir eyða öllu í brennivín á vertshúsum.
Að sjálfsögðu getum við ekki leyft að þessir fávísu útlengingar fari að gera hitt fyrr en 24 ára sem við skynsamir og menntaðir íslendingar mega gera 18 ára. Hvað þá að þeir fari að fá einhverja gesti sem ljúga því blákalt að vera venslamenn, það verður sko að taka lífsýni.  Það má bæta þessu í gagnagrunninn fræga sem enginn hefur heyrt nefndan undanfarið.  Auðvitað er líka sjálfsagt að lögreglan megi hlera smínann okkar uppá sitt eindæmi, það má kannski hlera hver heldur framhjá með hverjum og selja það síðan ákveðnum fjölmiðlum gegn greiðslu, þá er komin sjálfbær starfsemi.
Við búum við fullkomið öryggi á öllum sviðum og getum treyst því að hafa staðfasta ráðamenn sem láta engan beygja sig, nema stríðshressa vestursins.
Það er einhver beiskja í vorinu.  Það stendur hnífur í morgunsárinu, það lekur blóð úr kvöldroðanum
grj