Fara í efni

ÞAKKIR FYRIR ÓEIGINGJARNT STARF Í ÞÁGU BÁGSTADDRA

Sæll Ögmundur.
Nú er alltof langt síðan ég skrifaði þessari ágætu síðu bréf. Best að breyta því nú. Það er hlutverk sósíalista og annars vinstra fólks að tala fyrir hlut minnihlutahópa. Þar er vel gert í flestum tilfellum. Of margir hafa þó tileinkað sér tískumálefni eins og skipulagsmál í bæjarmálum og aðrir sofa jafnvel værum pólitískum svefni þrátt fyrir að hafa getuna og kraftinn til að vinna að mikilvægum málefnum. Það er þó annað mál.
Það sem ég vil þó koma á framfæri er þakklæti til þeirra einstaklinga og hópa sem vinna að málefnum minnihlutahópa. Við sjáum sjálfsprottin félagasamtök bjóða heita súpu og kaffi í miðbænum, matargjafir á samfélagsmiðlum til þess fólks sem þarf, rótgróin samtök á borð við Mæðrastyrksnefnd sjá um sína á erfiðum tímum og svo eru það einstaklingarnir sem vinna sína vinnu hvort sem það er atvinna þeirra eða einfaldlega vel hugsandi áhugamál. Málefni líðandi stundar sem brennur á samfélaginu nú yfir hátíðirnar er sú staðreynd að hluti atvinnulausra missir bæturnar.
Það er vissulega gott fólk sem lætur í sér heyra en það er mikilvægt að hljóðin deyji ekki heldur verði hljómurinn hærri. Það á að vera sameiningarmáttur vinstrimanna nú um áramót og á nýju ári.
Ágúst