Fara í efni

ÞAKKIR

Ég vil þakka þér Ögmundur fyrir að bjarga Samfylkingunni, ríkisstjórninni og þjóðinni allri frá þeirri niðurlægingu sem yfir vofði. Ég hef talið mig vera frjálslyndan vinstri mann en það að selja Ísland er auðvitað ekki frjálslyndi. Ekkert hagvaxtarfjas eða margfeldisáhrifafjas ætti að geta villt mönnum sýn í því efni. Og hvers eigum við að gjalda sem höfum fundið samleið með Samfylkingunni þegar annað eins ógeð er á borð borið.
Þegar ljóðskáldið skynjaði mótbyr leið ekki á löngu áður en það lét hafa eftir sér að það sendi fjárfestum ákveðin skilaboð yrði tilboðinu ekki tekið. Vonandi hefur það rétt fyrir sér í því.
Hótanir hafa reyndar ekki góð áhrif almennt, og það er ekki seinna vænna fyrir þess líka að átta sig á því að á þessu landi er fólk sem skilur fyrr en skellur í tönnum. Svo er aftur annað mál Ögmundur að þú vannst okkur sigur í þessari orustu en stríðið heldur áfram.
Það hlýtur að vera markmið að koma alfarið í veg fyrir landsölu til útlendinga.
En nú er mikið af stjórnmálamönnum sem virðast hafa ofurselt heilabú sitt kennisetningum, þannig að þeir komast sífellt að sömu niðurstöðunni. Í þessu tiltekna máli er einblínt á tilvonandi umsvif sem gætu vissulega komið sér vel til skamms tíma. Til langs tíma litið er þetta hins vegar afsal á íslensku landi, og það sem verra er - fordæmi.
Sem betur fer var tilboðið nægilega ósvífið til þess að við vöknuðum - 300 ferkm.
Mér finnst klárlega að sumir stjórnmálamenn skuldi þjóðinni afsökunarbeiðni fyrir aðkomu sína að þessu máli. Því fer fjarri að ég sólundi atkvæði á fólk sem lítilsvirðir það sem gerir okkur að þjóð ásamt tungunni - landið okkar. Sigurjón Mýrdal