Fara í efni

Það vantar reglur um tafir á beinum útsendingum og dreifingu dagblaða!

Ég lýsi eins og venjulega yfir fullum stuðningi við allt sem kemur úr smiðju Davíðs Oddssonar og tel eins og hann mikilvægt að koma böndum á rísandi auðvald í okkar ágæta landi. Tvennt mundi ég þó vilja sjá til viðbótar í fjölmiðlafrumvarpinu sem tekur, eins og kunnugt er, til útvarps- og samkeppnislaga. Þessi atriði varða annars vegar hömlur á útburð og dreifingu Fréttablaðsins og DV, eða annarra sambærilegra pappíra í framtíðinni, og svo hins vegar beinar útsendingar Íslenska útvarpsfélagsins. Mundi sá liður breytingartillögu minnar sem heyrir undir samkeppnislögin hljóða svo:

“Við mat á útburðarleyfum og tíðni dreifingar á dagblaðamarkaði skal Samkeppnisstofnun taka mið af eignarhaldi. Eigi markaðsráðandi aðili á öðru sviði meira en 25% hlut í útgáfufélagi dagblaðs má ekki hefja útburð eða dreifingu tölublaðs fyrr en viku eftir útkomu þess.”

Þetta tryggir að mínum dómi að lesendur, til að mynda Fréttablaðsins og DV, hafa betri forsendur til að meta heimildagildi viðkomandi blaða enda hafa þá Morgunblaðið og ríkisfjölmiðlarnir vikunni áður upplýst landsmenn um allt sem máli skiptir með tilhlýðilegum hætti. Og á vikugömlum upphlaupsfréttum um einhvern tittlingaskít hefur enginn áhuga. Tökum hugsanlegt dæmi af stríðsfyrirsögn á forsíðu DV eftir 2-3 vikur: “Fjölmiðlaólögin samþykkt í nótt”. Samkvæmt nýjum lögum mundi þetta tölublað DV berast lesendum viku síðar og þeir mundu þá sjá í hendi sér að þarna væri nú augljóslega réttu máli hallað.

Á sama hátt tel ég  afar mikilvægt að tefja beinar útsendingar ljósvakamiðla sem eru að stórum hluta í eigu markaðsráðandi aðila í öðrum geirum atvinnulífsins. Mundi þá sú málsgrein í breytingartillögu minni, og sem hnígur að sjálfum útvarpslögunum, tryggja nauðsynlegar tafir, rétt eins og á blaðamarkaðnum:

“Við mat á leyfum til beinna útsendinga skal útvarpsréttarnefnd taka mið af eignarhaldi. Eigi markaðsráðandi aðili á öðru sviði meira en 25% hlut í útvarpsfélagi skal vera í það minnsta einnar viku töf á beinum útsendingum viðkomandi stöðvar eða stöðva.”

Almennt gilda sömu rökin um þetta seinkunarákvæði og um dagblöðin. Áhorfendur Stöðvar 2, svo dæmi sé tekið, verða með þessu fyrirkomulagi miklu hæfari til að meta fréttir stöðvarinnar og skilja hismið frá kjarnanum eftir að hafa fengið fréttirnar vikunni fyrr í ríkisfjölmiðlunum og á síðum Morgunblaðsins. Og svona rétt í lokin til að árétta mikilvægi þess að seinka beinum útsendingum: Hver man ekki eftir hneykslinu í Bandaríkjunum í vetur þegar Janet Jackson beraði á sér hægra brjóstið í beinni? Viljum við að slíkt gerist hér í okkar ágæta samfélagi? Staðreyndin er sú að án allra girðinga og opinbers eftirlits gæti slíkt og þvílíkt auðvitað gerst og margt annað, jafnvel enn og verra – á þeim lausungartímum sem við nú lifum á.
Með kveðju,
Jón Grímsson frá Bisnesi