Fara í efni

ÞAÐ ERU FLEIRI BERRASSAÐIR EN KEISARINN

Um helgina hélt formaður Samfylkingarinnar, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, eina af sínum mörgu tímamótaræðum. Þetta gerðist á flokksstjórnarfundi sem reyndar var ekki haldinn í Borgarnesi að þessu sinni heldur á Hótel Nordica í Reykjavík. Í þessari ræðu kom enn og aftur í ljós að vegir Samfylkingarinnar eru óútreiknanlegir. Ingibjörg Sólrún fór um víðan völl og lagði að sjálfsögðu nútímalega vinkla á alla helstu málaflokka þannig að áherslurnar komu oftar en ekki óþægilega á óvart. Meðal annars kvartaði hún sáran undan því, fyrir sína hönd og gamla hippagengisins í Samfylkingunni, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði brugðist í varnarmálum þjóðarinnar. Hernaðarlegu öryggi landsmanna væri ógnað og varnarsamstarfið við friðardúfurnar í Washington, dúdú Bush og dúdú Donald Rumsfeld, væri í fullkomnu uppnámi vegna andvaraleysis Sjálfstæðisflokksins. Orðrétt sagði formaðurinn:

“Sjálfstæðisflokkurinn hefur í áratugi talið þjóðinni trú um að hann væri sú kjölfesta sem tryggði öryggi þjóðarinnar – af því hann væri í svo góðu sambandi við Bandaríkjamenn ... Nú stendur keisarinn berrassaður fyrir framan okkur. Öryggis- og varnarstefna Sjálfstæðisflokksins hefur beðið skipbrot með þeim hætti að íslenska þjóðin hefur verið niðurlægð og varnarsamstarfið við Bandaríkin er í uppnámi. Sjálfstæðisflokknum hefur mistekist hrapallega að tryggja öryggi þjóðarinnar, hvort heldur sem er hernaðarlega, efnahagslega eða félagslega.”

Með þessum orðum mælir Ingibjörg Sólrún væntanlega fyrir munn þeirra félaga sinna sem slitu barns- og fullorðinsskónum í Keflavíkurgöngunum forðum daga til þess að mótmæla veru bandaríska hersins hér á landi. Ár eftir ár gekk þetta ágæta fólk á móti hernum og NATÓ en áþreifanlegur afrakstur var því miður kannski sjaldnast miklu meiri en sárir fætur. En þegar svo herinn ætlar að tygja sig á brott að eigin frumkvæði er allt annað hljóð komið í strokkinn. Gömlu göngugarparnir fagna ekki tíðindunum heldur saka þeir Sjálfstæðisflokkinn, helsta merkisbera hernámsins og aðildarinnar að NATÓ, um svik við málstaðinn - saka hann um að hafa brugðist í öryggis- og varnarmálum. Umsnúningur þessi heitir víst hugmyndafræðileg endurnýjun á máli forystumanna Samfylkingarinnar og ekkert þykir fínna á þeim bænum.

Vissulega er ástæða til að samgleðjast forystufólkinu í Samfylkingunni að fótamein þess og hælsæri eftir allar Keflavíkurgöngurnar séu loksins heil orðin og algróin. Hitt er aftur á móti ekkert gleðiefni að þurfa að horfa nú upp á þetta fyrrum göngufólk friðar og réttlætis svo fullkomlega berrassað hugmyndafræðilega - í hverju málinu á fætur öðru - að naumast hefur annað eins sést í íslenskri stjórnmálasögu. Og það má þó keisarinn nakti eiga, Sjálfstæðisflokkurinn, sem Ingibjörg Sólrún beinir spjótum sínum að, að hann reynir í það minnsta að hylja viðkvæmustu staðina, jafnt að aftan sem framan, með lúkunum en það er langtum meira en um forystu Samfylkingarinnar verður sagt.
Þjóðólfur