Fara í efni

ÞAÐ ER VERIÐ AÐ ELTA RANGAN MANN

Skáld lýsti eitt sinn vinum, sem sátu yfir deyjandi dóttur annars. Um hinn var sagt að hann hafi starað lengi út í fjarskann, svipbrigðalaus, eins og dauðinn kæmi honum ekki við, eða kæmi honum of mikið við til að hann vildi sjá það sem var að gerast.
Það eru ábyggilega margir, sem undanfarna mánuði hafa starað út í fjarskann, svipbrigðalausir, og hugsanlega látið pólitíska andstöðu við Davíð Oddsson hér áður og fyrr, lita afstöðu sína til mannsins sem nú er formaður bankastjórnar Seðlabanka og ekki viljað sjá það sem er að gerast.
Í viðtali í Sjónvarpinu í október talaði þessi formaður bankastjórnar Seðlabanka afskaplega skýrt. Hann sagði í stuttu máli, að íslensk þjóð gæti ekki og ætti ekki að greiða niður skuldir óreiðumanna. Kvöldið áður hafði ráðherra í ríkisstjórninni sagt efnislega það sama í samtali við fréttamann ársins á mbl.is. Ummæli formannsins hafa svo verið fest í minni þjóðar, sem megin ástæðan fyrir því að bresk stjórnvöld létu til skarar skríða gegn íslenska bankakerfinu, íslensku stjórnkerfi, en auðvitað fyrst og fremst gegn þeim sem kallaðir voru óreiðumenn.
Síðan hefur hljómað um torg og stræti krafan um að bankamaðurinn víki til að skapa traust á íslensku fjármála- og efnahagslífi. Þeir sem halda því fram að einn seðlabankamaður beri ábyrgð á hruni íslenska bankakerfisins og að bara með því að setja inn annan mann, einan, muni traust útlendinga vaxa á ný og að þá fyrst sjái þjóðin út úr sortanum, fara villur vegar.
Þetta er sama hádegismóaafbrigði stalínismans og beitt hefur verið í forystugreinum um annan mann, sem menn vilja beisla með reglum og endurskoðun á hlutverki hans, forseta Íslands. Sá hefur mært auðmenn, en hann bað um það bankamaðurinn í Kastljósi, eins og skáldið sem hér er vitnað til gerði á sinni tíð, að umræðurnar yrðu settar á örlítið hærra plan. Undir þá ósk skal tekið.
Óljósar fréttir frá hinu Nýja Íslandi benda til að seðlabankastjórinn hafi verið IMF-kontóristum frá Washington erfiður ljár í þúfu. Tuð og misvísandi upplýsingar um svokallaða Icesave reikninga, fram og til baka á blaðamannafundum haustsins, benda sömuleiðis til þess, að fyrirstaða við að skrifa upp á þann óútfyllta tékka hafi verið í efri lögum Seðlabanka Íslands. Hvoru tveggja er enda í fullu samræmi við það sem bankastjórnarformaðurinn sagði í viðtali í Sjónvarpi þremur dögum eftir að finnsk eftirlitsyfirvöld bönnuðu íslensk-finnskum bönkum að flytja fé úr því landi. Þetta var dagana sem Vahanen, forsætisráðherra Finnlands, heimsótti Gordon Brown í Lundúnum, daginn áður en Gordon og Darling nýttu sér greiðan aðgang að BBC fréttaveitunni og viljandi settu Íslendinga alla í sama bát, bæði auðmenn og almenning.
Enn eru fréttirnar hér loðnar og teygjanlegar og síst til þess fallnar að koma til móts við kröfu um opna, upplýsandi og fordómalausa umræðu. Með því að tala Davíð Oddsson inn í brennipunkt athyglinnar hafa stjórnendur opinberrar umræðu, blaða- og fréttamenn beint athyglinni frá óreiðumönnunum sem settu efnahagslífið á hausinn. Það er einfalt að syngja saman í þeim kór, en söngurinn sá er orðinn ansi eintóna og athyglin enda beinst frá veigamiklum þáttum hrunsins mánuðum saman, atriðum sem skipta þjóðina gríðarlega miklu máli.
Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu þann 8. október 2008 er til dæmis sagt frá því að samkomulag hafi orðið um Icesave reikningana í Hollandi. Í tilkynningu ráðuneytisins segir: "Fjármálaráðherra Hollands, Wouter J. Bos, og fjármálaráðherra Íslands, Árni M. Mathiesen, tilkynntu þetta.
Ráðherrarnir fagna því að lausn hafi fundist á málinu. Wouter J. Bos kvaðst einkum ánægður með að staða hollenskra innstæðueigenda væri nú skýr. Árni M. Mathiesen bætti við að aðalatriðið væri að málið væri nú leyst.
Samkomulagið kveður á um að íslenska ríkið muni bæta hverjum og einum hollenskum innstæðueiganda innstæður að hámarksfjárhæð 20.887 evrur. Hollenska ríkisstjórnin mun veita Íslandi lán til að standa undir þessum greiðslum og hollenski seðlabankinn mun annast afgreiðslu krafna innstæðueigendanna."
Af hverju hafa fjölmiðlar ekki upplýst okkur um hve háar fjárhæðir hér er um að tefla? Eða á hvaða vöxtum er þetta lán sem tekið var? Var ekki talað um í Morgunblaðinu að þetta lán næmi rúmum milljarði evra, eða 145 milljörðum króna? Og hverjir eru ársvextir af þessu "bílaláni" sem tekið var í flýti? 7.5 milljarðar á ári, eða kannski níu milljarðar? Hvor talan sem valin er er mun hærri en allur sparnaðurinn í heilbrigðisþjónustunni á heilu ári.
Af hverju sitja þeir ekki í Kastljósi Sjónvarpsins, sem settu skattgreiðendur í þennan gapastokk í stað þess að hossast endalaust á Davíð Oddssyni, formanni bankastjórnar Seðlabankans?
Brjótið nú odd af oflæti ykkar. Þeir sem vilja gera upp við Sjálfstæðisflokkinn gera það í kosningum, ekki með því að styðja á hnapp á Alþingi og segja já. Borgarinn Davíð Oddsson er ekki lengur þar. Hættið að stara út í fjarskann. Takið höndum saman við þá sem spyrna vilja við fótum og mæta lánadrottnum óreiðumannanna af fyllstu hörku. Upplýsið kröfuhafana, innlenda og erlenda, þannig að óreiðumennirnir geti ekki siglt sinn sjó með breitt yfir nafn og númer eins og breskir veiðiþjófar. Gerið samkomulag við útlendar ríkisstjórnir og aðra áhugasama um að elta þetta lið uppi og felið vaskri sveit að fara fyrir okkar mönnum í þeirri eftirför. Þannig vex hróður þjóðar, ekki með því að elta rangan mann.
Helgi