Fara í efni

Sýnum Framsókn miskunnsemi

Siv Friðleifsdóttir segir, í ljósi fylgishruns Framsóknarflokkksins, að nú sé ekkert annað að gera en setja upp “boxhanskana og fara út á akurinn” til að komast í meira návígi við kjósendur. Ég segi nú bara eins og flokksbróðir hennar, fornkappinn Guðni, að “allir sem hafa heyrn hljóta að sjá” að hún er hreinlega að hóta kjósendum og kann það aldrei góðri lukku að stýra. En kannski er þetta rangtúlkun hjá mér. E.t.v. er Siv bara á rangri hillu því í orðum hennar kann að leynast einhver myndlíking eins og bókmenntafræðingarnir kalla það sjálfsagt og ég þekki nú ekki grannt til? Hvað segir þú Ögmundur, á Siv að hætta í stjórnmálum og snúa sér að ljóðagerð?
Kveðja, Egill Skallagrímsson 

Sæll Egill.
Ekki skal ég dæma um hvort Siv Friðleifsdóttir býr yfir skáldagáfu. Ég skal hins vegar játa að mér finnst framferði Framsóknarflokksins í hverju málinu á fætur öðru mjög undarlegt. Flokkurinn stjórnast greinilega af mjög þröngri hagsmunapólitík. Þannig erum við að ráðast í dýrustu stóriðjuframkvæmdir sögunnar til að bjarga atkvæðum Framsóknarflokksins á Austurlandi. Þjóðin var svipt eignarhaldi á Búnaðarbankanum til að treysta í sessi valdablokk sem Framsóknarflokkurinn telur sig ráða yfir og muni njóta góðs af þegar fram líða stundir. Mörg önnur dæmi má taka af hagsmunapoti flokksins. Ekki er þetta pot í þjóðarhag og góðviljaðir menn eru án efa farnir að óttast um sálarheill framsóknarmanna. Ef til vill væri Framsóknarflokknum mestur greiði gerður með því að sýna honum þá miskunnsemi að leggja hann til hvílu í næstu Alþingiskosningum. Vonandi má treysta á góðvilja þjóðarinnar 10. maí hvað þetta snertir.
Kveðja,Ögmundur