Fara í efni

SÝNIÐ VARFÆRNI

Heill og sæll Ögmundur.
Fyrir aldarfjórðungi vorum við samherjar í baráttu fyrir fólk sem hafði lent í misgenginu fræga 1983-1984. Þú í Sigtúnshópnum en ég á Akureyri. Nú þegar hrópað er á leiðréttingu vísitöluhækkunar upp á 10% á einu ári verður mér hugsað til 40% hækkunar á lánskjaravísitölunni 1983 með fasta launavísitölu. Þá var lítið gert annað en að lengja í lánum og bjóða upp á viðbótarlán. Munurinn þá og nú er að vísu sá að þá voru menn ekki skuldsettir langt upp fyrir haus, ekki með bílalán og lán til nánast alls sem mönnum datt í huga að kaupa. Lánafylleríið mikla þar sem bankarnir mokuðu út lánsfé eins og ÁTVR hefði gefið öllum alkóhólistum þjóðarinnar vín!!! Að mínu áliti er engin ástæða til að gera mikið meira nú en þá gagnvart þeim hópi sem er með lán sín tengd vísitölu. Myntlánin er önnur saga sem ég veit ekki hvernig á að leysa. Kannski eru þau ólögleg og því þarf að stilla þau af á því gengi sem var þegar þau voru tekin. Margir hafa tapað miklu meira fé en þeir sem hafa fengið 10% hækkun á íbúðarlánum. Nægir þar að nefna allt það venjulega fólk sem lagði sparnað sinn í hlutabréf í bönkunum eða átti innistæður í peningamarkaðssjóðum, lífeyrisreikningum o. fl. Það skal tekið fram að ég átti ekkert af þessu. Ég skrifa þetta til að leggja áherslu á að fara verður varlega í að láta þjóðina alla greiða niður skuldir sem hefðu orðið mönnum að falli óháð hví hort bankarnir hefðu hrunið eða ekki og óháð því hvort vísitalan hækkaði um 10% eða ekki.
Bestu kveðjur,
Magnús