Fara í efni

STJÓRNMÁLASKÓLI SJÁLFSTÆÐIS-FLOKKSINS

Blessaður Ögmundur.
Mér sýnist að þú sért að kalla eftir nýjum kúrs í Stjórnmálaskóla Sjálfstæðisflokksins þar sem fjallað yrði um störf flokks í stjórnarandstöðu. Þetta er hárrétt athugað hjá þér. Það eru hins vegar mörg ljón í veginum hjá okkur sjálfstæðismönnum um þessar mundir - til að mynda er nánast vonlaust að finna flokksbundinn kennara í þessum fræðum eftir tæplega tuttugu ára setu við stjórn landsins.

Að vísu eigum við einn stjórnmálafræðiprófessor sem ætti að geta skipulagt og kennt námskeið um störf í stjórnarandstöðu en vandamálið er að hann fer svo gjarnan í fræðilega útrás þegar illa stendur á hér heima. Fyrir réttri viku flutti Hannes td. fyrirlestur undir heitinu „The Strange Death of Liberal Iceland" á sérstakri aukaráðstefnu Mont Pelerin-samtakanna í New York þar sem saman voru komnir, auk hans, tveir Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði, aðrir virtir ökonomistar og svo sjálf rúsínan í pylsuendanum, Steve Forbes, útgefandi viðskiptatímaritsins Forbes  - svo aðeins fáeinir séu nefndir.

Ég skora á Hannes að bjóða sem allra fyrst upp á kennslu í stjórnarandstöðu við Stjórnmálaskólann okkar  - það getur nefnilega ekki verið að „The Strange Death of Liberal Iceland" vefjist lengi fyrir honum; ef hann á annað borð horfir raunsæjum augum á málin.

Kveðja, Þjóðólfur