Fara í efni

Stjórnarsamstarf eftir kosningar

Sæll Ögmundur! Kemur annað til greina en að styðja ríkisstjórn Framsóknar og Samfylkingar, jafnvel verja þá falli ef þessir tveir flokkar ná ekki meirihluta? Hvernig má það vera að sá flokkur sem er lengst vinstri í stjórnmálum á Íslandi, haldi þeim möguleika opnum að starfa með þeim flokki sem er lengst til hægri í stjórnmálum.
Kveðja Haraldur

Við höfum lagt ríka áherslu á að stofnuð verði velferðarstjórn á Íslandi að afloknum næstu kosningum þar sem jöfnun lífskjara yrði höfð að leiðarljósi. Það er ljóst að sú stefna sem fylgt hefur verið í rúman áratug í ríkisstjórnum Sjálfstæðisflokksins, fyrst í samstarfi við Alþýðuflokk og síðan Framsóknarflokk, hefur leitt okkur út í miklar ógöngur. Verðmætar eignir þjóðarinnar hafa verið seldar og gefnar, breytingar hafa verið gerðar á skattkerfi sem leitt hafa til aukins ójöfnuðar og misréttis í þjóðfélaginu, grafið hefur verið undan velferðarkerfinu og nægir þar að nefna húsnæðismálin. Hér þarf að verða grundvallarbreyting. Hugmyndir um að VG verji minnihlutastjórn Samfylkingar og Framsóknar falli er fráleit. Varla er hægt að ætlast til þess að við veittum þessum flokkum skjól á meðan þeir þrömmuðu með þjóðina til Brussel. Þá skiptir og að sjálfsögðu meginmáli að sú velferðarstjórn sem hér þarf að mynda, rísi undir nafni. Ég er sannfærður um að svo mun ekki verða nema með sterkri aðkomu Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og í því samhengi sæi ég fyrrnefnda flokka sem samstarfsaðila. Þess vegna er það mín tillaga til þjóðarinnar að stórefla VG í komandi kosningum þannig að flokkurinn verði leiðandi afl í næstu ríkisstjórn.