STÆKKUNARSINNI EN EKKI ÓSÁTTUR
Ég er stuðningsmaður VG í Hafnarfirði. Ég kaus með stækkun en er samt ekki óánægður með niðurstöðuna. Þótt ég væri ósammála mínum samherjum í VG í Hafnarfirði í þessu máli þá var ég samt ánægður með að þeir tækju afstöðu í málinu gagnstætt því sem Samfylkingin gerði. Stjórnmálamenn verða að þora að hafa skoðun. Ég styð VG þrátt fyrir öfgafulla náttúruverndastefnu flokksins. Ég vil ofar öllu öðru fulla atvinnu og jöfnuð í samfélaginu og þar er VG einum flokka treystandi. Þess vegna styð ég VG. Ég styð VG sem verkalýðsflokk!
Ég var svipaðrar skoðunar og þú Ögmundur árið 1995 þegar álverið var stækkað því þú studdir það eins og þú hefur upplýst. Ég var ánægður að heyra það. Ég er þér hins vegar ekki sammála að aðstæður séu allt aðrar nú en þá. Þá þoli ég ekki þetta röfl um að álver séu slæmir vinnustaðir. Það hefur mikið gerst í aðbúnaði og mengunarvörnum álvera frá því álverið í Straumsvík tók til starfa!
En ástæðan fyrir því að ég er ekki óánægður með þessa niðurstöðu þótt ég sé stækkunarsinni er að ég hefði ekki getað hugsað mér að ráðist yrði í stækkun álversins með bæjarfélagið klofið í herðar niður. Ég held að við stækkunarsinnar getum frekar tekið þessari niðurstöðu en hinn hópurinn. Þetta er einfaldlega mín skoðun.
Fyrrverandi starfsmaður í Straumsvík
Þakka þér bréfið. HÉR er greinin sem bréfritari vísar í varðandi mín ummæli.
Kv.
Ögmundur