Fara í efni

SPILAKASSAR: EIGUM VIÐ AÐ FARA AÐ DÆMI PÚTÍNS?

Sæll Ögmundur!
Ég var að lesa innlegg frá Halldóri Á. varðandi spilafíkn og svarið frá þér. Innleggið minnti mig ansi mikið á Hannes nokkurn Hólmstein sem sagði að það væru alltaf einhverjir sem yrðu undir í frjálshyggjuþjóðfélagi og þess vegna væri svo mikilvægt að þeir sem væru ríkir gætu orðið ríkari svo hægt væri að hjálpa þeim sem hefðu orðið undir. Ef við snúum þessu upp á innlegg Halldórs má segja að því fleiri sem spili því minna verði hlutfall þeirra sem verða fíkninni að bráð. Þessi framsetning er ekki til að ganga Halldóri í orðastað. Þetta er líking sem ég tel vera gangandi ranghugmynd í samfélaginu. Því fleiri sem spilavítin verði því færri verði fíklarnir af því að það taki svo margir þátt. Júlíus Júlíusson stofnandi síðunnar spilavandi.is sagði í Kastljósi að um 5.000 manns væru haldnir spilafíkn.
Ég veit ekki hvaðan Halldór hefur þessar upplýsingar en ég trúi því tæplega að þær séu frá Pétri Tyrfingssyni því Júlíus byggir á upplýsingum frá SÁÁ.
Fyrir áramótin fór ekki hátt hér í fjölmiðlum að Pútín forsætisráðherra Rússlands lét henda ÖLLUM spilakössum í landinu. Rökin voru þau að heilsufarsvandamál sem tengdust spilafíkn og þar með spilakössum væru svo mikil og dýrkeypt bæði þjóð og einstaklingum að ekki væri réttlætanlegt að leggja líf og heilsu tugþúsunda í rúst. Því skyldi það vera öðruvísi hér? Allt frá árinu 1994 hef ég sjálfur glímt við spilavanda sem hefur komið og farið. En þótt ég hafi í talsvert langan tíma haldið mig frá spilakössum þá kviknar alltaf löngun þegar auglýsingar birtast frá fyrirtækjum sem sérhæfa sig í að ná til spilafíkla. Staðreyndin er sú að TÖLFRÆÐILEGA tapar spilarinn alltaf. Hver færi að starta rekstri sem væri fyrirfram glataður? Húsið - spilakassinn - spilavítið græðir ALLTAF. Á hverjum? Ja, hverjir skyldu spila mest? Eru það ferðamenn sem hafa verið að spila í Gullnámunni svo dæmi sé tekið? Ekki hef ég rekist á þá. Rök Arnars Gunnlaugssonar með spilavíti eru þau, svo ég taki hann sem dæmi um mann með slaka siðferðiskennd (sem er mitt persónulega mat), að flestir hafi gaman af því að spila og leggja undir. Það er rétt að flestir hafa gaman af að spila sbr. bridge, félagsvist ofl. Að leggja undir er bara allt annað mál.
Þeir sem byrja að leggja undir eru á góðri leið með að verða fíklar. Allir sem ég hef talað við sem spila póker eða önnur spil uppá peninga segjast gera þetta vegna spennunnar. Það sé svo gaman. Þá erum við kommir með samnefnara. Spennuna!!! Spilafaíklar spila uppá spennuna. Það eru ekki peningarnir sem skipta máli. Það að hafa bæklinga í anddyri spilavítis eða hjá Gullnámunni eða sjoppukössum hefur ekki fækkað fíklum svo mér þykja það mjög svo léttvæg rök. Þetta hefur verið svona í nokkur ár á þeim stöðum sem mest er spilað þ.e. hjá spilakössum og það hefur engin áhrif. Spilafíkill lætur ekki "blaðsnepil" stöðva sig. Ef fjölskylda, íbúð, bíll og hvaðeina stöðvar ekki spilafíkil þá gera það engir bæklingar.
Mér finnst eðlilegt að skoða þann raunhæfa möguleika sem Pútín nýtti þ.e. að banna spilakassa og eyða þeim sem fyrir eru og stöðva öll áform um opnun spilavítis. Mér finnst tilhugsunin óhugnanleg um að börnin mín eða barnabörn, nærfjölskylda verði spilafíkn að bráð. Þeir sem vilja stofna spilavíti eða casino eins og Jón Kaldal ritstjóri Fréttablaðsins kallar það (fínt nafn yfir féflettingu) og mælir eðlilega með hafandi verið þátttakandi í spilavíti eigenda blaðsins, ættu að hugsa sig tvisvar um áður en þeir mæla þessu bót. Ert þú Ögmundur tilbúinn að taka slaginn með þeim sem vilja spilakassa burt og banna spilavíti með svo skýrum hætti í lögum að mönnum detti ekki í hug að hugsa um að stofna slíkan "súlustað"?
Spilafíkill

Þakka þér bréfið, sem mér finnst mjög gott. Já, ég er til í þennan slag. Ég hef reyndar margoft hreyft þessum málum utan þings og innan en augljóslega þarf  að skerpa á þessari baráttu.
Kv. Ögmundur
Nýleg skrif mín: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/vilja-graeda-a-spilafikn
Umrætt bréf Halldórs: https://www.ogmundur.is/is/fra-lesendum/viltu-tha-banna-afengi-lika