Fara í efni

SPEGILMYND

Í fægðum spegli birtist mynd af mér
og máttur hugans einfaldlega sér að
víst er bæði spáð og spekúlerað
er spegilmyndin kveður mig og fer.

Og síðan einn ég stend og stari á
er stöðugt falla korn úr tímans bergi,
mín spegilmynd í ljósi leynist hvergi
en lífsins afl ég fæ um stund að sjá.

Í ljósi áður fegurð mín var mest
en mynd í spegli lít ég aldrei framar
og tómleikinn sem hug og hjarta lamar
hann heldur fast í það sem ekki sést.

Og hugur minn hann virðist veill og sljór
en vitund mín fær haldið anda sínum
því hreinni fegurð býr í mætti mínum.
en myndinni sem bæði kom og fór.

Kristján Hreinsson, skáld