Fara í efni

SÖGULEGUR OG TÁKNRÆNN FÁNI !

Góði Ögmundur ...
Mér þótti gleðilegt að sjá ykkur Pétur Kristjánsson hlið við hlið þar sem þú tókst við íslenskum fána frá Pétri, fallegasta fána í heimi, tákni íslensku þjóðarinnar!
Þetta er orðin merkilegur, sögulegur og táknrænn íslenskur fáni Ögmundur, íslenskur fáni sem núverandi ríkisstjórn gat ekki fundið neinn stað fyrir. Þetta er svo ótrúlegt að ég get ekki orða bundist. Þetta er ótrúlegt en jafnframt táknrænt!
Geir H. Haarde forsætisráðherra Sjálfstæðisflokksins faldi sig fyrir Pétri og lét hann ekki ná í sig en lét starfsmenn sína síðan hringja í hann eða hafa samband við hann til að tjá honum að núverandi ríkisstjórn hefði ekkert pláss, hvað þá not fyrir íslenska fánann!  Táknrænt Ögmundur!
Hve lengi á íslenska þjóðin að þurfa að þola svívirðingu af hálfu þeirra sem nú eiga að heita að vera í forsvari þjóðarinnar?  Er að furða að þjóðmálin séu í því ástandi sem þau eru með vanrækta þjóðina, rænda og svívirta!
Það er einnig táknrænt að postuli íslenskrar samfélagshyggju og þjóðrækni, sjálfur verkalýðsleiðtoginn og alþingismaðurinn Ögmundur Jónasson skuli taka við fánanum frá Pétri Kristjánssyni, með virðingu og bros á vör í þakklætisskyni! 
Ögmundur, ég vona að þú finnir þessum íslenska fána góðan stað, þar sem ber mikið á honum, og takir hann jafnvel á ræðufundi og samkomur, til að minna fólk á að þetta er fáninn sem núverandi stjórnvöld Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins höfnuðu og fundu engan stað fyrir, hvorki á byggðu bóli, né í hjörtum sínum!
Ég ber mikla virðingu fyrir Pétri Kristjánssyni og hafi hann þökk og heiður fyrir framtak sitt. Ég vona að þessi heiðursgjöf hans verði hvatning til þess að íslenskir fánar verði í hávegum hafðir miklu meir en áður hefur verið! Hvarvetna sem Íslendingar koma saman, eða gera sér dagamun, eiga þeir að hafa fánann uppi, ekki aðeins um hátíðar sem þó á að vera regla!  Það er auðséð að núverandi stjórnvöld hafna íslenska fánanum, en við þjóðræknir Íslendingar berum lotningu fyrir honum!  Íslenski fáninn er okkar þjóðartákn, sem minnir á tilveru þjóðar vorrar!
Hafðu einnig ætíð í huga Ögmundur, að þetta er fáninn sem þjóðræknir Íslendingar klökkna frammi fyrir, af lotningu, ekki aðeins á  Íslandi, heldur engu síður á erlendri grund, sama hvaða líkamlega burði við höfum eða hversu merkilega við teljum okkur vera!  Þetta er heilagt tákn íslensku þjóðarinnar!
Ég votta Pétri og þér Ögmundur, virðingu og þakklæti fyrir þjóðrækni ykkar!
Helgi