Fara í efni

"SKUGGINN" RÍS Á FÆTUR

Sæll Ögmundur.
Mér datt í hug í morgun þegar ég sá að Steingrímur Hermannsson, forveri Halldórs Ásgrímssonar í embætti formanns Framsóknarflokksins, tók sig til og leiðrétti spunadrengi forsætisráðherra í Mogrunblaðinu að þarna væri komin enn ein staðfestingin á að sigurvegararnir skrifuðu söguna. Hann benti þeim kurteislega á góðra vina fund sinn með Thatcher forsætisráðherra Breta fyrir 18 árum, fund sem var hér í öllum fréttum og fréttaskýringaþáttum 1988. Varstu ekki sjálfur með fréttaskýringu um málið? Steingrímur leiðrétti eftirmann sinn með sínum hætti. Baneitraður og tvíræður kom hann skilaboðum sínum á framfæri á sinn tvíræðan hátt þó þannig að hann stimplar sig inn hjá fólki sem gengur um með opin augu og eyru. Í tilkynningunni sem forsætisráðuneytið sendi frá sér og stendur uppi á heimasíðu ráðuneytisins nú í morgun segir: “Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra átti fyrr í dag fund í Downingstræti 10 með Tony Blair forsætisráðherra Bretlands. Á fundinum minntust ráðherrarnir þess að um þessar mundir eru 30 ár síðan forsætisráðherra Íslands heimsótti starfsbróður sinn í Bretlandi síðast.” Steingrímur Hermannsson bendir í Morgunblaðinu á að hann heimsótti Thatcher í desember 1988. Nú er spurning hvort spunadrengirnir taka til baka hina sögulegu vitleysu og biðja Tony Blair afsökunar á því að hafa sagt rangt frá fundinum opinberlega. Engum dettur í hug að spunameistarar Tonys hafi ekki vitað hvenær íslenskur forsætisráðherra kom síðast í Downingstræti og því fráleitt að hann hafi rætt þetta atriði sérstaklega við íslenska starfsbróður sinn. En það var ekki aðeins að Halldór sjálfur og spunadrengirnir séu slegnir freudísku minnisleysi þegar Steingrímur Hermannsson er annars vegar. Sama gildir um Þorstein Pálsson, ritstjóra Fréttablaðsins. Steingrímur Hermannsson virðist líka varpa svo miklum skugga á ritstjórann að hann tapar áttum og þvælir líka fram og aftur um það í leiðara sem skrifaður er fyrir draumverksmiðju Hringsins að Geir Haarde hafi komið á fundi Halldórs og Blairs sem sé “merkur fyrir þá sök, að slíkur fundur hefur ekki verið haldinn í þrjá áratugi.” Kannske eins gott að maðurinn hætti við að skrifa pólitíska sögu lýðveldisins úr því hann féll á þessu litla prófi eins og spunadrengirnir og Dóri.

Aftur að Steingrími Hermannssyni og bráðgóðri morgunblaðsfrétt sem blaðið á hrós skilið fyrir að birta. Steingrímur segir frá NATO samskiptum sínum og Margrétar: “Þá kom hún til mín og spurði hvort það væri ekki rétt að ég væri forsætisráðherra í samsteypustjórn og þyrfti að treysta á fleiri flokka og sagði ég að það væri rétt. Þá sagði hún: “Vesalings maðurinn”. Það var augljóst að hún vildi hafa öll völd í sinum höndum...” Ögmundur er þetta ekki tær snilld? Er hann ekki stór helv... kallinn ennþá? Allir vita sem vilja vita að Steingrímur lék við hvern sinn fingur í ríkisstjórninni 1988 til 1991 og hafði fulla stjórn á liðinu og var þá einn valdamesti framsóknarmaðurinn um langt árabil. Hann, framsóknarmaðurinn var ekki neinn “vesalings maður” í samsteypustjórn. Hlutskipti eftirmannsins ætlar að verða annað. Fregnir af merkilegum fundi forsætisráðherra í London verða hlægilegar gagnvart almenningi fyrir handvömm þeirra sem eru ekki vandanum vaxnir og streitast nú við að sannfæra yfirmann sinn um að það sé ekkert stórmál hvort árin eru 30 eða 18. Það hefði mátt færa rök fyrir því ef þetta hefði til dæmis snúist um að lesa rétt úr ensku útgáfunni af fyrir hádegi og eftir (pm og am) en í þessu tilviki er Steingrímur Hermannsson í veginum og það gerir málið ennþá pínlegra fyrir Halldór Ásgrímsson. Er ekki rétt að fara að gefa Steingrími viðurnefnið skugginn Ögmundur? Steingrímur “Skuggi” Hermannsson. Hvorki Halldór né Þorsteinn Pálsson sjá handa sinna skil þegar “Skugginn” rís á fætur!
Kv.
Ólína

Þakka bréfið Ólína. Umhugsunarvert. Mjög umhugsunarvert.
Kv.
Ögmundur