Fara í efni

SKRUM & OKUR

Sæll Ögmundur....
Það er rétt hjá Eddu á síðunni þinni að það er bæði beinlínis og óbeinlínis verið að OKRA á íslenskum almenningi, á svívirðilegan hátt, án þess að dónarnir skammist sín!
Ég veit að Alþýðusambandið hafði verið að myndast við að tína vörur í körfur og upplýsa hvað hver okraði í það og það skiptið.  Síðan komst upp að verslanirnar sem erindrekar ASÍ heimsóttu, vissu hvenær þeir kæmu í heimsókn, sem gaf viðkomandi verslunum tækifæri til að hagræða verði og vöru sem gerði samanburðinn þeim hagstæðan. Þá skilst mér að ASÍ börnin hafi tekið upp á því að fara óboðin og án vitundar verslunarstjóranna í verslanirnar, en þá hafi verslanaeigendurnir brugðið við og hreinlega rekið þau úr verslununum eins og hverja aðra rakka.
Samt sem áður Ögmundur, er nauðsynlegt að einhverjir geri eitthvað fyrir íslenska neytendur, því enn er verið að ljúga að þeim og okra á þeim viðstöðulaust án þess að nokkur geti að gert enda búum við nánast við einokun, Við slíkar aðstæður gengur ekki að leita á önnur mið. Varla getur fólk hætt að éta í mótmælaskyni!
Hvernig væri að stanslaus alvöru úttekt sverði erð á núverandi einokunarverslun af fagfólki.  Verkalýðshreyfingin gæti haft fulltrúa með yfirumsjón með verkefninu og fjármagnað það ásamt hinu opinbera sem á lögum samkvæmt að rannsaka og tryggja heilbrigða og sanngjarna samkeppni í landinu.
Eitt sem er bæði ódýrt og auðvelt, og það er að gera yfirgripsmikinn og nákvæman lista yfir allar nauðsynjarvörur á íslenska markaðinum. Þessum lista yfir nauðsynjavöru yrði haldið við, og hann stöðugt borinn saman við verð á sömu vöru í nágranna löndunum beggja vegna Atlantsála. Síðan ætti að komast nákvæmlega að hvaða mismunur ef einhver, kynni að vera  sanngjarn vegna staðsetningar Íslands. Staðsetningunni og fraktinni er ætíð borið við af verslunarmönnum, þegar minnst er á hærra vöruverð á Íslandi, svo ekki sé talað um "lagerinn". Ég persónulega tel að staðsetning Íslands og fraktin sé stórlega ofmetin af innflytjendum. T.d. er enn dýrara að flytja vörur á afskekta staði í Evrópu og Norður Ameríku, en samt er lítill eða allsenginn munur á vöruverði á þeim stöðum og í verslunarkjörnum stórborganna.
Málið er Ögmundur, að nú á dögum tölvunnar og upplýsinga sem berast á augabragði, þá er þetta mjög auðvelt og virkt verk að vinna. Einnig væri tilvalið að umrædd stofnun fengi stöðugt auglýsingapistla og sölubæklinga hinna ýmsu verslana erlendis frá og bæri verðið saman í þeim og verðið á sömu vöru á Íslandi. Ég hef persónulega orðið var við jafnvel tífalt verð á Íslandi miðað við sömu vöru erlendis. Einnig finnst mér neyðarlegt að flestu fólki finnst verðið í IKEA vægt en ég hef orðið var við að verðið þar er yfirleitt meira en helmingi hærra (100%) á Íslandi, en erlendis. Þetta sýnir sorglega hvaða áhrif okrið, skrumið og blekkingartalið  hefur haft á íslenska neytendur.
Í þessu sambandi skal haft í huga að vöruverð í erlendum verslunum er einnig eins mikið okur og viðkomandi kemst upp með.  Því er nauðsynlegt að komast einnig að virkilegu frumverði vörunnar, þaðan sem íslenskir kaupmenn verða að kaupa vöruna frá, þ.e. framleiðenda eða frumdreifiaðila hans.
Ögmundur, þetta verður að rannsaka til hlítar af fagmönnum og upplýsa stjórnvöld og íslenska alþýðu um þessi efni!
Ekki gera svokallaðir fjölmiðlar þá rannsókn, enda í eign viðkomandi auðvalds. Í mínum augum líta þeir, alla vega sunir hverjir, meira út sem auglýsinga pistlar en fjölmiðlar. þeir eru því varla líklregir til að skapa nauðsynlegt aðhald í versluninni fyrir fyrirhönd neytenda!
Úlfur