Fara í efni

SKRÍTIN SKEPNA

Sæll Ögmundur.
Heyrði í viðtal í útvarpi, sennilega á Sögu, þar sem Sigríður Ingibjörg Ingvadóttir fór yfir langanir sínar og þrár í pólitík. Ótrúlegt hve mjög menn geta orðið viðskila við raunveruleikann. Sigríður Ingibjörg varði með kjafti og klóm gríðarlegan niðurskurð í velferðarkerfinu, en telur að niðurskurðurinn hafi í raun orðið sigur norrænu velferðarstjórnarinnar. Þá gat hún engu svarað um eitt af grundvallaratriðum rammaáætlunar eins og Mörður Árnason skilgreinir afstöðu Samfylkingarinnar. Viðskila við veruleikann. Er ekki tíminn til kominn að tengja og viðurkenna: Fjármálakerfið hefur gengið fram af mikilli hörku gagnvart skuldsettu fólki, gengismálum er hagað þannig að almenningur á aldrei leik, laun voru lækkuð, bætur voru lækkaðar, allur tilkostnaður við rekstur heimila hefur stóraukist og atvinnuleysið notað sem hagstjórnartæki. Í Samfylkingunni er það helst að Helgi Hjörvar spyrni við fótum af almennum þingmönnum. Veruleikinn, það er skrítin skepna. Af hverju geta menn ekki bara sagt satt og rétt frá og viðurkennt, að það er þjóðin, við, sem greiðum fyrir hrunið og ekki þeir sem komu milljörðum undan til útlanda?
Kveðja,
Stefán