Fara í efni

SKORTUR Á GÓÐU HUGARFARI

Á dögunum vakti formaður Sjálfstæðisflokksins athygli á því í Valhöllu, höfuðvígi íhaldsins á Íslandi að komið hefði fram tillaga um að hætta við guðþjónustu í upphafi þings hverju sinni að hausti. Sú hefð að setja þing eftir guðþjónustu mun fyrst hafa hafist 1845. Þá var Ísland undir dönsku einveldi en kóngur var taldi sig af guðdómlegri náð vera konungur Dana og Íslendinga. Ekki er vitað að sérstök guðþjónusta hafi verið í Þingvallakirkju við upphaf þings hverju sinni meðan þing var háð við Öxará og alla vega aldeilis ekki á 10. öld. Þing hófst eftir venju að morgni fimmtudags í 11. viku sumars en það þótti hentugur tími til þingstarfa eftir sauðburð og aðrar vorannir en áður en heyannir hófust. Þingtíminn hefur lengi vel fylgt hormónastarfsemi sauðkindarinnar og mætti Bjarni formaður skoða þetta mál betur. Hvort guðþjónusta fyrir nútíma þingfólk hafi einhverja praktíska þýðingu held ég skipti sáralitlu máli. Guðþjónustan og setningarathöfnin er eins og hver önnur sýndarmennska þar sem fylgt er meir gamallri venju en skynsemi. Alla vega hafa prestum fram að þessu gjörsamlega mistekist að hafa góð og friðsamlega áhrif á þingmenn sem hafa reynst einstaklega þrasgjarnir og með einstakt úthald til hártogana og útúrsnúninga af minnsta tilefni. Innleiða mætti skynsamlegar siðareglur á þingi þar sem þeir myndu eftirleiðis bera meiri virðingu fyrir bæði sjálfum sér og samstarfsmönnum sínum að ekki sé talað um samkundu þessa í þessari gömlu virðulegu byggingu. Bjarni formaður má mín vegna sækja eins margar guðþjónustur og hann telur sig hafa gagn af slíkri tómstund sér til sáluhjálpar. Kannski hann geti í leiðinni lagst á bæn og beðið guð almáttugann að blessa hlutabréfin sín og veitt þeim betra gengi í endalausri baráttu þeirra Engeyjarmanna að efla auð sín og völd. Mættu aðrir áþekkir hafa sama í huga. Annars sakna eg presta á þingi. Meðan þeir voru jafnframt þingmenn var mun virðulegri blær á þinginu innan um alla embættismennina. Svo komu lögfræðingarnir og urðu þrásetnir. Ætli sú stétt manna sé ekki einna fjölmennust þeirra allra sem á þingi hafa setið. Og eru lögin ansi götótt og ófullkomin mörg hver. Kannski mætti bæta það með inngöngu í Efnahagsbandalagið? Og enn síðar komu allir hagfræðingarnir og urðu einnig þrásetnir. Þá var eins og andskotinn væri kominn á svið sögunnar. Sjálfsagt má endalaust þrasa um hvað þessari blessaðri þjóð reynist best, kannski væri praktískt að biðja guð almáttugan að forða henni frá bröskurum, frjálshyggjumönnum og féöflunarmönnum. En alla vega frá þrasgjörnum þingmönnum. En alla vega vantar betra hugarfar til að rækta þinghaldið og koma því upp á ögn hærra plan. Góðar stundir.
Guðjón Jensson, Mosfellsbæ