Fara í efni

SKILABOÐ BILDTS

Á sama tíma og útvarp ríkisins messar yfir landslýð um ágæti evrópskrar samvinnu, og á meðan sá Evrópuklúbbur íslenskra háskólamanna, sem sleginn er ESB-styrkjaglýju, útbreiðir fagnaðarerindið, berast skilaboð frá fulltrúum evrópsku stórfyrirtækjasamsteypunnar út til Íslands. Fyrst var það Þverhagen, utanríkisráðherra Hollands, sem vill að   Íslendingar gjaldi keisaranum það sem keisarans er. Svo er það Carl Bildt, utanríkisráðherra Svía. Einn harðasti íhaldsmaður, sem Svíar hafa alið, ef undan er skilinn Gösta Bohman.

Hver voru skilaboð Bildts fyrir hönd ESB? Jú, aðild Íslands myndi auka aðkomu ESB að norðaustursvæðinu vegna náttúruauðlindanna sem þar er að finna. Hvar er nú útvarp ríkisins og hvar eru nú hinir hlutlægu, háskólaborgararnir sem hafa gert Evrópu að sérsviði sínu? Sá eini sem vakið hefur máls á útþenslustefnu ESB til norðurs er Björn Bjarnason, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og það gerir hann með þungum rökum á vefsíðu sinni í gær. Niðurstaða Björns Bjarnasonar eftir ágætan pistil er þessi: "Hér skal því haldið fram að lokum, að mikil skammsýni fælist í því, að Íslendingar köstuðu frá sér áhrifum og stefnumörkun varðandi Norður-Íshafið í hendur Evrópusambandsins. Íslensk utanríkisstefna á að byggjast áfram á sama grunni og reynst hefur bestur, nánum tengslum við ríki Norður-Ameríku og Evrópu, þar sem Íslendingar eiga sjálfir síðasta orð um ráðstöfun auðlinda á yfirráðasvæði sínu í hafinu umhverfis landið." Hér getur verið amen eftir efninu.

Næstu nágrannar okkar Íslendinga eru Grænlendingar, Færeyingar og Norðmenn. Ekkert þessara ríkja er í ESB og öll hafa þau sýnt Íslendingum meiri skilning á erfiðleikatímum, en til dæmis Hollendingar og Bretar. Hefur hvarflað að Jóhönnu Sigurðardóttur, forsætisráðherra, sem hlýtur að vera hönnuður hinnar nýju utanríkisstefnu, sem ráðherra hennar boðar nú um Evrópu, að færa í tal við næstu nágranna okkar hvernig þeim litist á að hið miðevrópska keisaradæmi fengi varanlega fótfestu á Norðurslóð? Væri það ekki sjálfsögð kurteisi? Eða er ekki tími til kominn að menn fari að átta sig á að ESB hefur slétt engan áhuga á að veiða þessi 160 þúsund tonn af þorski sem veiða má í kringum Ísland? Það eru náttúruauðlindirnar sem menn ásælast. Ekki bara þær sem kynnu að vera hér á landgrunninu. Með Ísland innan sinna vébanda hyggst ESB styrkja stöðu sína í samningum um náttúrauðlindir, eins og olíu og gas, gagnvart frændþjóðum okkar sem ekki eru í ESB. Í þeim leik yrðum við kannski í hlutverki Brútusar.

Eitt er það einkenni á íslenskri sál sem er bæði gott og vont, en það er heimalningseðlið. Gott af því við áttum okkur ekki alltaf á því að fámennið ætti að setja okkur meiri takmörk en við viljum horfast í augu við, en þetta er til dæmis ein ástæðan fyrir því að við teljum okkur geta haldið úti velferðarkerfi fólks og fyrirtækja að hætti iðnvæddra ríkja. Vont af því veröld heimalningsins á það til að verða eins og sveitapiltsins draumur, hrekklaus og stundum svolítið einfeldningslegur, veröld hins auðtrúa. Háskólamenntuðu Evrópufræðingarnir eru til dæmis alltaf að segja okkur frá því hvað matarverð hér muni lækka, en þeir hafa ekki minnst á ásælni ESB í auðlindirnar og samningsstöðuna sem aðild Íslands hefði í samningum um skiptingu þessara auðlinda.

Menn þurfa að fara að spyrja: Hvað eiga Íslendingar sameiginlegt með Grikkjum? Rúmenum, Slóvökum, Portúgölum, Finnum, eða Lettum? Það eina sem mér dettur í hug er Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, þessi andlausa prússnesku skotna schlagerfestival, sem tröllríður sjónvarpi ríkisins ár hvert fyrir tugi milljónir króna sem sú stofnun hefur svo ekki efni á að setja í menningarefni, eða til að láta lesa yfir fréttir, áður en þær eru sendar út á brenglaðri íslensku. Og menn þurfa að fara að spyrja sig,   t.d. í framhaldi af ágætri grein Björns Bjarnasonar: Af hverju taka Íslendingar ekki frumkvæðið hér á Norðurslóð og bjóða Grænlendingum, Færeyingum, Norðmönnum og Kanadamönnum uppí dans? Lítið á landakortið góðir hálsar: Grænland, Ísland, Færeyjar og Noregur ráða nær öllu norðurheimskautinu! Þessar fjórar þjóðar ráða yfir gríðarlegum óbeisluðum náttúrauðlindum. Saga þjóðanna er samofin, menningin eins. Lítið á landkortið góðir landar. Og þessa gagnrýni sem sett er fram á þig Ögmundur vegna atkvæðagreiðslunnar um ESB tek ég ekki undir. Þjóðin verður að fá að klára þetta ESB mál í atkvæðagreiðslu, en andstæðingarnir þurfa bara að átta sig á því að þetta snýst ekki um fisk - ESB er á heimsvaldastefnubraut. Yfirráð yfir náttúruauðlindum, það að geta kúgað smáþjóðir, eins og Grænlendinga, Færeyinga og Norðmenn, við borð, þar sem samið er um aðgang að auðlindum, eða siglingaleiðum, er hluti af þeirri stefnu.

Höfnum Icesave og hugsum um sjálf okkur og nábúa okkar. Tökum frumkvæði og stofnum nýtt Norðurlandaráð, sem stæði undir nafni, Norðurlandaráð, sem réði yfir auðlindum framtíðarinnar, sem fólgnar eru á norðurslóð. Kanadamenn, Bandaríkjamenn og Rússar gætu svo fengið aukaaðild að þessu nýja Norðurlandaráði. Horfum fram í tímann, ekki aftur til mið-evrópska keisaraveldisins.

Ólína