Fara í efni

SITT SÝNIST HVERJUM

Ögmundur minn kæri. Ég hefi nú um langt skeið ekki tjáð mig varðandi mál líðandi stundar. Ég get þó ekki orða bundist hversu harkalega öfl innan VG fara gegn Katrínu okkar Jakobsdóttur. Mér finnst helv hart hversu sú er við tók af þér og ég veitti brautargengi á sínum tíma fer grimmilega fram gegn okkar frábæra formanni og kann ég henni litlar þakkir fyrir. Auðvitað stöndum við öll gegn beitingu vopnavalds og ég tala nú ekki um beitingu efnavopna, en mér finnst aðallega vera mesti hávaðinn eftir að Trump og co fóru fram og eyðilögðu efnavopnaverksmiðjurnar, þessi háværu mótmæli voru ekki mjög svo í frammi þegar Rússar og stjórnvöld í Sýrlandi voru að berja á þjóðinni. Nú loksins þegar búið er að losa Sýrland við mestan hluta efnavopna, þá fara fram mótmæli gegn beitingu vopnavalds VESTURVELDA? Við eigum að slá skjaldborgina okkar frægu um Katrínu og styðja hana til góðra verka, hún er fær um að láta slíkt skína skæru ljósi.
Kveðja,
Óskar K. Guðmundsson fisksali

Heill og sæll og gott að heyra frá þér. En nú erum við heldur betur ósammála eins og sjá má af skrifum mínum að undanförnu. Ég held nefnilega að við séum að verða vitni að nýjum alþjóðlegum lygaþætti í nákvæmlega sama dúr og Írakslygarnar á sínum tíma.
Í mínum huga stendur málið þannig að leppherir Bandaríkjanna og Sádi Araba í Sýrlandi eru að tapa í stríðinu og þess vegna er ráðist til atlögu nákvæmlega núna - ömurlegt að Íslendingar skuli vera þar taglhnýtingar!  
Ég hef ekki orðið eins reiður lengi og þegar fréttir voru sagðar af þessum árásum sem ég hef rökstuddan grun um að byggi á lygum. 
Ég hvet þig til að lesa bók sem ég hef undir höndum eftir Tim Anderson, ástralskan fræðimann, þar sem hann rekur gang mála í ´"Stríðinu gegn Sýrlandi." Ég skal láta þig fá eintak ef þú vilt.
Með bestu kveðju,
Ögmundur