Fara í efni

SIR HUMPHREY OG RÁÐHERRANN

Sæll Ögmundur.
Mjög oft hefur þú komið mér skemmtilega á óvart þessi síðustu 4 ár með góðum rökum og úthugsaðri stefnu sem oft byggir á skoðun sem ég get skrifað undir að lang mestu leiti. En nú sýnist mér að Sir Humphrey Appleby hafi eitthvað náð tökum á þér. Allt í einu og nokkuð gjarnan síðustu örfáa mánuði hefur þú talað máli stjórnsýslunar í stað þess að tala máli fólksins á Íslandi. Þú ert einn af örfáum þingmönnum sem hefur talað fyrir fólkið í landinu, ég vona að þú náir að bíta sir Humphrey af þér. Allir vilja þessi barnalög í gagnið og helst strax. Það er bara eitthvað skrifræðis raus sem mælir gegn þvi. Stjórnmál eiga að byggja á framtíðarsýn og henni á að ná fram, ekki láta eitthvað lögfræði-reiknimeistara stóð trufla þig í að framfylgja réttri framtíðarsýn.
Kveðja,
Hallur

Ég vil þakka þér fyrir hlý orð í minn garð. En að gagnrýni þinni: Þar er ég þér algerlega ósammála. Það er auðvelt að setja orð á blað í lagatexta og samninga. Meira er um vert að fylgja þessum orðum eftir í framkvæmd. (Um þetta fjalla ég í öðru samhengi í pistili sem ég birti í Sunnudagsblaði Morgunblasins.) Ég get sagt þér dæmi og það meira að segja nýleg frá sýndarafgreiðslu á málum og á ég þá við að fjöðurin er sett í hattinn á flutnigsmönnum lagafrumvarpa en ekkert hugsað fyrir framkvæmdinni. Þetta skal ég skýra betur síðar. 
Mér er afar umhugað um ný barnalög, finnst þau með mikilvægari lagasmíðum í seinni tíð. En ég vil að þau verði annað og meira en orðin tóm.
Mikilvægur þáttur í þessum lögum er að aðkoma hins opinbera að erfiðum forræðisdeilum með lögbundnu sáttaferli. Í þessu efni eru stigin mikilvæg framfaraspor. En það kostar kunnáttu og fjármagn að sjá til þess að þessi skref séu í alvöru tekin.
Það er auk þess ekkert að því að tala máli stjórnsýslunnar. Ég er þegsar allt kemur til alls í forsvari fyrir hana á tilteknu sviði og hlýt að axla mína ábyrgð þar. Ég er einfaldlega að reyna að standa þaning að málum að vel sé.
Ögmundur