Fara í efni

SAMFYLKINGIN ER EKKI LÍTIL SÁL - EÐA HVAÐ?

Ég ætla fyrir hönd míns flokks, Samfylkingarinnar, að frábiðja ósvífin og niðurlægjandi skrif um  okkur hér síðunni. Að tala um flokkinn minn sem litla sál, eins og þú hefur gert Ögmundur og sumir lesendur þínir, er í hæsta máta óviðeigandi. Á sviði umhverfismála, utanríkismála og heilbrigðismála framfylgjum við okkar stefnu og fullyrði ég að lengra væri gengið í virkjanamálum, gagnvart NATÓ og í einkavæðingu heilbrigðiskerfisins ef okkar jafnaðarmanna nyti ekki við í ríkisstjórninni.
Meðkveðju,
Jafnaðarmaður

Þakka bréfið.
Í mínum huga er spurningin hvor flokkurinn gengur lengra, Samfylking eða Sjálfstæðisflokkur, í stóriðjustefnunni, undirgefni gagnvart NATÓ og einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu. Hallast helst að því að Samfylkingin gangi ívið lengra en Íhaldið. Sjálfstæðismenn haldi jafnvel heldur aftur af Samfylkingunni ef eitthvað er. Annars eru þessir flokkar orðnir ósköp líkir. Það vill gerast í ríkisstjórnum þegar forystumennirnir verða ástfangnir af stólunum sínum.
Þú verður að fyrirgefa en þannig blasir þetta við mér.
Ögmundur