Fara í efni

SAMA SAGAN OG ÁÐUR?

Seðlabankinn hækkaði vexti um daginn. Rök bankans eru sett fram opinberlega í fundargerð peningastefnunefndar. Þar segja þeir að vextir upp á síðkastið hafi verið heldur lágir sé tekið mið af langtímamarkmiðum um að viðhalda fullri nýtingu framleiðsluþátta. Þeir kalla þetta slaka í peningastefnunni og að laust taumhald peningastefnunnar hefði stutt við efnahagsbatann og þann hagvöxt sem við getum státað af. En þeir eru hræddir við öfgarnar í hina áttina. Nú er kominn tími til að herða taumhaldið og senda skilaboð um að verðbólgan eigi að fara niður að viðmiði bankans. Þessi lestur vekur gamlar minningar þegar Seðlabankinn hélt vöxtum háum til að hamla þenslu á meðan ríkisstjórnin eyddi og spennti bogann til að viðhalda velsæld og eigin vinsældum. Til viðbótar hafði peningamálastjórnin þau áhrif að hvetja fjármálaspekúlanta heimsins í vaxtamunarviðskipti sem olli innflæði fjármagns, keyrði gengið upp og bóluna áfram ásamt því að skilja okkur eftir með þessa margumtöluðu snjóhengju. Það er önnur saga en sýnir hvert þessi einstrengingssýn á vexti sem stjórntæki peningastefnunnar getur leitt þjóðina. Nú horfum við til þessa á ný. Ríkisstjórnin fer fram með fjárfestingaráætlanir, göng, nýtt fangelsi og helst spítala. Það er vegna þess að það er slaki í hagkerfinu. Seðlabankinn telur hinsvegar að það þurfi að beita harðara taumhaldi í peningastefnunni til að vinna gegn þensluþrýstingi. Þetta er eins og með margt eftir hrun. Nákvæmlega sama sagan og áður.
Finnur