Fara í efni

SAGAN AÐ ENDURTAKA SIG?

Yngri kynslóð framsóknarmanna virðist hafa unun af því að spegla sig í gömlum gildum og þjóðlegum arfi. Það hefur t.d. þá birtingarmynd að þeim finnst viðeigandi að láta mynda sig við fánahyllingu á Þingvöllum og kynna ríkisstjórnarsamstarfið í héraðsskóla sem minnir gróskutíma uppbyggingar í sveitum landsins.
Þeir vilja kjósa sér þá ásýnd að við úrlausn flókinna fjármála kalli þeir til mann með meistaragráðu frá Oxford en séu hjartahreinir eins og ungmennafélagsmenn heimafyrir. Með þessu vilja þeir trúlega kenna sig við þann gamla kjarna í flokki sínum sem hefur lengi verið hallur undir félagshyggju, samtakamátt og mannrækt, en fáir hafa orðið varir við síðustu áratugina.
Fortíðarhyggja þessara ungu framsóknarmanna er þó helst til ungæðisleg. Þegar þeir völdu sér kennisetningar úr þessari fínu fortíð Framsóknarflokksins fleyttu þeir rjómann og litu framhjá því sem þeir töldu sig ekki þurfa á að halda. Svo virðist sem það hafi ekki vakið forvitni þeirra að sú kynslóð framsóknarmanna sem þeir vilja kenna sig við sagði sömu setninguna áður en þeir festu svefn og fóru á fætur dag hvern: „Allt er betra en íhaldið". Ástæðan var einföld. Þeir höfðu verið plataðir svo oft í samstarfi við þá og voru ævinlega skildir eftir rúnir trausti og sjálfsvirðingu.
Nú hefur sagan endurtekið sig og framsóknarmenn færðu íhaldið til valda einn ganginn til. Framsóknarmennirnir ungu eru enn bjarteygir og virðast hjartahreinir þó þeir séu í hlutverki Trójuhestsins. Sjálfstæðisflokkurinn sem í aðdraganda kosninga virtist frekar hófsamur hefur skipt algerlega um ham.
Jöfnuður í ríkisfjármálum er meira keppikefli nú en þegar AGS réð hér ríkjum og skiptir engu hvað lætur undan. Aðgengi almennings að heilbrigðiskerfi er lægra á forgangslistanum en að efla löggæsluna eins og fram hefur komið. Þá tala ráðherrar um það í tækifærisræðum og viðtölum við fjölmiðla að það standi til að einkavæða í heilbrigðiskerfi, vegakerfi, höfnum og víðar. Það á að venja okkur borgarana við hugmyndina um að við séum að kúvenda til hægri.
Það grátlega í þessu er að Sjálfstæðisflokkurinn virðist hafa vitað að þær hugmyndir sem þeir vinna nú að myndu aldrei ná hylli kjósenda. Þess vegna þögðu þeir þunnu hljóði um fyrirætlanir sínar í kosningaræðunum. Þeir sigldu undir fölsku flaggi og hafa nú fjögur ár til að athafna sig án þess að kjósendur fái nokkuð að gert.
Framsóknarflokkurinn var plataður einn ganginn til og er e.t.v. ekki búinn að horfast í augu við það. Þeir mjálma við og við í fjölmiðlum og lýsa yfir að það sem íhaldsráðherrann sagði í fjölmiðlum daginn áður standi alls ekki til. En það sjá allir að íhaldið styrkist á meðan taugaveiklunin vex hjá Framsókn.
Ef þeir gagnast íhaldinu ekki þegar líður á kjörtímabilið verður þeim bara skipt út, t.d. fyrir flokka sem hafa lýst því yfir í sífellu að þeir hafi farið of langt til vinstri í síðustu ríkisstjórn.
Pétur P.