Fara í efni

RÚV komið undir saxið?

Ég minnist þess að við umræðuna um fjölmiðlafrumvarpið vildir þú fyrst fá botn í umræðuna um framtíð RÚV. Nú hefur komið á daginn að þetta reyndist skynsamleg afstaða. Sendimenn frá ESA eru mættir á staðinn, einsog skýrt var frá í fjölmiðlum í gær, til að skilgreina hvort leyfilegt sé að reka stofnunina í núverandi mynd! Geir H. Haarde, fjármálaráðherra hafði áður sagt við Eldhúsdagsumræðuna eitthvað í sama dúr og bætti því við, ef ég tók rétt eftir, að draga þyrfti saman seglin hjá stofnuninni og nú botnar Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, menntamálaráðherra, þetta með því að lýsa yfir að þessi vinna sé komin í hvínandi gang! Nú fer myndin öll að skýrast. Ekki efast ég um að menn eigi eftir að nota fín tískuorð um "gagnsæi " og "skilvirkni" um leið og RÚV verður færð undir saxið. Ósköp er ömurlegt að hugsa til þess hvernig þessi mannskapur vinnur. Óskandi væri að vinnubrögðin væru meira "gagnsæ" og heiðarleg.
Kveðja,
Sunna Sara