Fara í efni

RÁÐHERRA/ÞINGMANNA FRUMVARPIÐ BURT !

Ögmundur!
Ég trúi ekki að þið klárið þessa kjarasamninga, án þess að eftirlaunasamningar þingmanna verði endurskoðaðir, þeir eru ekkert nema rán, ef ekki má hrófla við þeim þá er það annað en aðrir verða að þola. Ég er nú ekki ánægð með mín eftirlaun og er þar að auki spyrt við eftirlaun mannsins míns, eins og það er nú líka niðurlægandi. En um daginn var ég á ferð með konum, öllum á eftirlaunaaldri og ein þeirra tjáði mér aðspurð að hún hefði unnið 32-33 ár á öldrunarstofnun í nágrenni Reykjavíkur og væri afraksturinn á milli 30-40 þúsund á mán. í eftirlaun, en með tekjutengingu og lífeyri hefði hún eftir skatta um 80 þúsund. Borið saman við Halldór Ásgr. sem var á þingi jafnlengi, eða um það bil, fer hann út með a.m.k. með eina milljón. Er þetta réttlátt? Þú varst eini þingmaðurinn sem var á móti þessu frumvarpi í fyrra og sá eini sem lét í sér heyra um ranglæti þessa sjálftökuliðs sem alltaf hugsar fyrst um sjálft sig. Látið reyna meira á þetta réttlætismál í samningunum.
Edda

Þakka þér bréfið Edda.
Því miður á BSRB ekki beina aðkomu að endurskoðun kjarasamninga að þessu sinni - nokkuð sem aldrei má gerast aftur. BSRB er háð því sem gerist á almennnum vinnumarkaði. Ríkisstjórnin náði þessu fram, því miður.  Eftirlaunafrumvarp þingmanna og ráðherra er spillingarhneyksli sem þarf að nema brott. Þar er ekki til nein millileið. Um þetta er ég þér fullkomlega sammála.
Kv.
Ögmundur