Fara í efni

ORKURÍKIÐ

Það lifir þjóð í andans orkuríki
sem illa leikin var af þjófasýki,
hún fékk að svamla um í djöfladíki
með drauma sem hún þóttist geta keypt.
En vonir hennar fóru fyrir slikk
því falskir karlar héldu vegleg teiti,
þeir gáfu öllu braski burðug heiti
og betri tíð var sögð á næsta leiti.
En þessir kappar fólki gerðu grikk
og glæstri þjóð þá var í skuldir steypt.

Svo mættu þeir sem kunnu ýmsa klæki
og kynntu herrum skúffufyrirtæki,
þeir vildu þagga alla skrílsins skræki.
Þá skefjalausum fortölum var beitt
og loforð fóru útum ríkið allt.
Er aðstoð varla sýndi nokkur granni
þá hjálpin kom frá nískum námumanni
sem náði létt að sneiða framhjá banni,
því orkuríkið virtist flestum falt
og fyrir það hann greiddi ekki neitt.

Hjá honum virtist græðgi gjöful ólga,
hann ginnti til sín kanamelludólga
er yfir ríkið læddist kreppukólga,
hann kaupa vildi þjóðarinnar blóð
og taldi þetta varla mikið verk
því víðast hvar hann daufum lyddum mætti,
hann drýldna seggi oft með klikki kætti
sem krupu vel með undirlægjuhætti.
Þeir gleymdu því að víst er vonin sterk
sem verndar hina orkuríku þjóð.

Kveðja,
Kristján Hreinsson