Fara í efni

ORÐSTÍR SVAVARS HEFUR ALLTAF VERIÐ Í GÓÐU LAGI !

Ég hef lesið greinar þínar um samskipti þeirra Jóns Baldvins, Steingríms Hermannssonar og Svavars Gestssonar af athygli. Ég er sammála þér að auðvitað áttu þeir tvímenningar að koma hreinna fram gagnvart Svavari. Mér finnst það sannast sagna aumt af þeim að geta ekki viðurkennt það og beðist afsökunar. Hitt ætla ég þó að sé rétt að hvorugur þeirra JBH né SH hafi trúað nokkru misjöfnu upp á SG varðandi Austanmenn. Það gerði þjóðin ekki heldur eins og þú reyndar segir. Í ljósi þessa þykir mér þú gera of mikið úr þessum landráðabrigslum. Þau voru aldrei sett fram nema þá af einstaka öfgamanni sem vildi sverta vinstri menn og halda Rússagrýlunni á lífi. Ástæðan fyrir því að Svavar varð fyrir skeytum nokkurra hægri öfgamanna var einfaldlega sú að hann var mjög öflugur talsmaður vinstri stefnu. Þess vegna var reynt að grafa undan honum og gera hann ótrúverðugan. Aldrei hef ég hins vegar hitt nokkurn einasta mann sem lagt hefur trúnað á þetta Stasí tal varðandi Svavar. Hans orðstír hefur alltaf verið í góðu lagi. Þannig að það er engan blett að hreinsa af æru SG og óþarfi að leggjast í allan þennan víking af þeim sökum.
Síðan er hitt sem ég er ekki sammála þér um. Getur verið að þú viljir frekar trúa staðhæfingum Róberts Trausta Árnasonar, sem ég hef fyrir satt að standi langt til hægri í stjórnmálum, en Jóns Baldvins Hannibalssonar? Gæti nú ekki verið að einhverjir þræðir liggi á milli RTÁ og félaga hans í Sjálfstæðisflokknum? Væri ekki verðugt verkefni fyrir rannsóknarfréttamenn að kanna þá þræði?
Samfylkingarmaður sem áður var í Alþýðubandalagi

Þakka þér bréfið. Margt af því sem þú segir er eflaust hárrétt. Auðvitað trúðu sárafáir rógburðinum um Svavar Gestsson og félaga. Engu að síður var hann fyrir hendi og reglulega komið á framfæri – oftar en ekki á lævísan hátt. Tilefnið var náttúrlega fráleitt. Sem ungur maður – nánast unglingur – var Svavar í nokkra mánuði í Austur-Þýskalandi og hafði sig þaðan á brott vegna þess að honum þótti lögregluríkið þrengja að sér. En eins og henti alla sem þarna komu til náms var búinn til um hann fæll því um alla virðist hafa verið njósnað. Hins vegar hefur nú komið fram að Stasi náði aldrei tökum á neinum Íslendingum, hvorki SG né öðrum. Einn maður, Guðmundur Ágústsson, sagði einhvern tímann frá því að hann hefði tvisvar verið beðinn um að kanna eitthvað fyrir Stasi, hvort verið væri að grafa göng vestan frá yfir til Austur-Berlínar og síðan eitthvert ámóta mál. Síðan ekki söguna meir. Þessi maður sem öllum, sem til hans þekktu, ber saman um að hafi verið strangheiðarlegur var giftur austur-þýskri stúlku og ákvað hann að gera þetta til að vernda fjölskyldu hennar en hann hafði metið það svo að með þessu viðviki myndi hann engan skaða. Það að aldrei varð neitt meira úr þessu bendir til að Stasí hafi ekki talið að hann væri vænlegur til að gerast verkfæri leyniþjónustu. Eftir stendur hins vegar sú staðhæfing að hann hafi verið á mála hjá Stasí, nú síðast var þetta nefnt í Silfri Egils í dag. Svona tal getur farið illa með menn og þá ekki síður fjölskyldur þeirra.
Ég er einfaldlega að hvetja til þess að nú verði tækifærið notað til að gera þetta tímabil upp. Þá verða menn líka að koma fram af sanngirni og heilindum.
Varðandi tengsl Róberts Trausta og Sjálfstæðisflokksins get ég ekkert fullyrt. Mér er einfaldlega spurn: Hvers vegna ætti hann að skálda upp dagbækur sínar frá þessum árum (?), auk þess sem því verður ekki mótmælt að JBH hefur orðið nokkuð tvísaga í málinu. Það er ekkert sem fram hefur komið sem fær mig til að finnast annað en að JBH hefði á sínum tíma átt að ræða það við félaga sína í ríkisstjórn hvað var að gerast í þessum málum. 
Með kveðju,
Ögmundur