Fara í efni

" Orð skulu standa"

Ofanskráð tilvitnun er yfirskrift forystugreinar Morgunblaðsins 27.11.2003.
Tilefnið greinarinnar er tilvitnun í ræðu Jóns Kristjánssonar heilbrigðisráðherra á Alþingi þess efnis að á árinu 2004 verði einungis unnt að efna 2/3 hluta samkomulags þess sem gert var við öryrkja í marsmánuði 2003 um hækkun á grunnlífeyri öryrkja og breytingar á kerfi örorkulífeyris. Í forystugreininni var lögð áhersla á að þar sem samkomulagið væri án skilyrða og því beinlínis heitið að umsamin breyting kæmi til framkvæmda frá og með 1. janúar 2004, væri stjórnvöldum ekki stætt á öðru en standa við efni samkomulagsins. Þegar efni þess samkomulags var kynnt á sameiginlegum fundi ráðherra og forystumanna Öryrkjabandalags Íslands, var sérstök athygli vakin á tvöfaldri hækkun grunnlífeyris til yngstu öryrkjanna. Í lok fréttar Morgunblaðsins af þessum fundi var þess getið að sérfræðingar ráðuneytisins áætluðu að kostnaðarauki vegna þessa samkomulag væri rúmur einn milljarður króna á ársgrundvelli. Þessi áætlun sérfræðinganna var að sjálfsögðu alls ótengdur því samkomulagi sem gert var. Við fjárlagagerð um haustið 2003 kom hinsvegar í ljós að einungis 1 milljarði var úthlutað til að “efna” þetta samkomulag. Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra sór og sárt við lagði við þá umræðu að þó að ekki tækist á árinu 2004 að standa við nema 2/3 umrædds samkomulags yrði allt gert til að sjá til þess að afgangurinn komi til framkvæmda árið 2005. Í viðtali við Morgunblaðið 28.11.2003, þar sem ma. var spurt hverju hann svaraði, þegar hann væri sakaður um svíkja samkomulagið með áfangaskiptingu þess,  sagðist Jón hafa einsett sér að uppfylla samkomulagið. “Við munum breyta lögum í samræmi við það sem samkomulagið kveður á um. Við munum borga strax um áramótin það sem samkomulagið hljóðaði upp á, þegar það var gert og greiða síðan viðbótina. Kerfisbreytingin verður lögfest og hún er komin til að vera”, sagði Jón. Eitt er við þetta svar að athuga og það er sú fullyrðing ráðherrans að til standi að borga á árinu 2004 í samræmi við samkomulagið! Í SAMKOMULAGINU VAR EKKERT KVEÐIÐ Á UM ÁKVEÐNA UPPHÆÐ Í HEILDARAUKNINGU BÓTA TIL ÖRYRKJA !

Í hádegisfréttum RÚV í gær kom fram að Davíð Oddsson forsætisráðherra hefði engar áhyggjur af væntanlegri málssókn Öryrkjabandalagsins vegan vangreiddra loforða skv. fyrrgreindu samkomulagi. Samkomulagið hefði verið efnt með greiðslu 1 milljarðs króna!Þeim milljarði hafi verið heitið af miklum “rausnarskap” skömmu fyrir kosningar í fyrra. Ekki sé gert ráð fyrir greiðslu 500 milljóna króna vegna þessa samkomulags í fjárlögum 2005, enda hafi því aldrei verið lofað! Hann óttist ekki málsókn öryrkja. Þeim hafi engu verið lofað og eyði því eigin peningum með slíkum málarekstri!

NÚ ER SEMSAGT ENDANLEGA LJÓST HVER RÉÐI ÞVÍ AÐ SAMKOMULAG VIÐ ÖRYRKJA VAR EKKI EFNT OG EKKI STENDUR TIL AÐ GERA ÞAÐ !
Ætlar  Halldór Ásgrímsson að láta það verða eitt af fyrstu verkum sínum sem forsætisráðherra að lýsa því formlega yfir, að samkomulag Jóns Kristjánssonar við Öryrkjabandalagið hafi verið “kosningabrella”, sem ekki standi til að efna  að fullu ?
 Ísmann