Fara í efni

“...OG ÞAR AF LEIÐANDI STÆKKUN ÁLVERSINS."

Til þessa hefur mér líkað vel við bæjarstjórann minn hér í Hafnarfirði og vona að svo verði áfram. En þá verður Lúðvík Geirsson líka að breyta um kúrs í álversmálinu. Ekki það að ég geri kröfu til þess að bækjarstjóri falli frá stuðningi sínum við stækkun álversins. En ég geri kröfu til þess að hann komi hreint fram gagnvart okkur sem erum stækkuninni andvíg. Í fréttum hefur hann gefið í skyn að þar sem fulltrúar VG hafi komið að vinnu um deiliskipulagstillögu Alcans, ásamt fulltrúum allra flokka  hljóti flokkurinn að styðja deiliskipulagið. Lúðvík talar í því samhengi um að þverpólitísk samstaða sé um deiliskipulagið. Og þar sem kjósa á um deiliskipulagið lesa menn það út að VG styðji stækkun! Þessu hefur VG mótmælt. Lúðvík bæjarstjóri sættir sig hins vegar ekki við þau mótmæli og sakar VG um útúrsnúninga. Í Morgunblaðionu í gær segir bæjarstjórinn að stækkun álversins “komi Hafnfjarðarbæ ekkert við....” Hvernig á að skilja þetta? Forstjóri álversins, Rannveig Rist, leggur hins vegar nákvæmlega sama skilning í málflutning bæjarstjórans og fulltrúar VG hafa gert því í Morgunblaðinu í gær er þetta haft eftir henni: “Rannveig segir mikið fagnaðarefni að náðst hafi þverpólitísk samstaða um það í Hafnarfirði hvernig hægt er að stækka álverið í Straumsvík........” Og fréttamaður Morgunblaðsins segir í frásögn sinni: “Bæjarráð Hafnarfjarðar fundaði um málið á þriðjudag og lögðu fulltrúar meirihlutans fram tillögu um að íbúakosning vegna breytinga á deiliskipulagi og þar af leiðandi stækkun álversins, færi fram 31. mars.”
Lúðvík Geirsson þarf að vanda málflutning sinn betur ef hann ætlar ekki að glata trausti okkar Hafnfirðinga.
Haraldur