Fara í efni

ÓFÆRT AÐ LÁTA REKA Á REIÐANUM!

Sæll Ögmundur mér finnst þetta ágætt innlegg hjá þér um vatnið, þetta var sakleysisleg frétt í blaðinu en í raun er um mikið grundvallarmál að ræða. Eiga íslenskar náttúruauðlindir að ganga kaupum og sölum á alþjóðamarkaði, eða eignarrétturinn að færast til erlendra aðila? Um þetta er lítið rætt. Mér er enn í fersku minni framtak þitt við Geysi, að halda aðganginum gjaldfrjálsum (þó svo að ágangurinn er orðinn slíkur í dag að hugsanlega væri það orðin ákveðin lausn til að stöðva tröllaukna ásókn í náttúruperlur landsins) og tel þetta mál sennilega enn mikilvægara. Af hverju er enginn umræða, engin umfjöllun um nýtingu náttúruauðlinda (og þá hér sér í lagi íslensks vatns) heldur allt látið reka á reiðanum? Þér tókst 2011 að halda íslensku landi enn í eigu innlendra aðila, en eins og þú segir gerast hlutir hratt, þýskur aðili getur selt íslenskt malarfjall minnir mig, enskur aðili á bestu laxveiðisvæðin fyrir norðaustan og íslenskan verður undir yfirgangi enskunnar í ferðaþjónustu. Verður ekki að draga einhverja línu í þessum málum, eða bara láta reka á reiðanum?
Kveðja jón

Sæll og þakka þér fyrir bréfið. Ég er þér hjartanlega sammála. Varðandi gjaldtöku við náttúruperlur er ég þó enn við sama heygarðshornið. Ég vil láta rukka við komuna til landsins - alla, óháð þjóðerni og láta gjaldið renna til uppbyggingar og viðhalds á ferðamannastöðum. En ég er algerlega sammála því að ófært er að láta reka á reiðanum eins og þú réttilega segir.
Með kveðju, Ögmundur