Fara í efni

NÝJAR LEIÐIR GEGN KJARA-MISRÉTTI

Sæll Ögmundur.
Ég (eins og svo margir), hef verið mikið hugsi síðan fréttir bárust af því að helstu stjórnendur fyrirtækja hækkuðu laun sín um 40% á síðasta ári. Þetta er ekki alveg nýlega skeð, en maður er samt enn að hugsa um þetta. Svör sem einhverjir forkálfar atvinnlífsins höfðu, voru að þetta væru „leiðréttingar" því á síðustu árum (sennilega eftir hrun), hafi þessir aðilar orðið fyrir töluverðri skerðingu (það er auðvitað ekkert talað um útblásnu launin sem þessir menn fengu á uppgangstímum fyrir hrun).
Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að stjórnendur og aðilar með svokölluð ofurlaun, hafa alltaf og sennilega munu alltaf gera allt til að fá meira en allur almenningur. Það hefur líka sýnt sig að baráttan við að berjast á móti þessari þróun er oftast veik og hefur ekki borið mikinn árangur.
Þá er ég komin að megin ástæðu þessa bréfs. Er kannski rétt að kanna aðrar leiðir í þessari endalausu baráttu við að reyna að minka þennan rosalega launamun. Sú hugmynd sem ég er með er komin óbeint að sektakerfi sem mér skilst að sé í Finnlandi, þar sem sektir miðist einhvernvegin við tekjur eða eignir. Er hægt hér á landi að allar verðskrár hjá öllum geirum hins opinbera, geti tekið einhvernvegin mið af tekjum og eignum hjá þeim sem nota þjónustuna?
Þannig væri hægt sennilega að lækka kostnaðin hjá þeim sem minnst hafa (og ekki veitir af), um leið og þeir sem verulega hafa á milli handa, borgi þá langt um meira fyrir sömu þjónustu. Að svona geti þetta verið hjá öllum stofnunum ríkisins td. Sjúkrahúsum og auðvitað líka ökusektum (þaðan sem hugmyndin er komin).
Skattakerfið er þegar þannig að „allir" (eða sennilega flestallir), borga svipaða prósentu af sínum launum í skatt. Af hverju er ekki eins hægt að koma svona svipuðu inn á allar hinar stofnanir opinbera geirans líka? Ég veit auðvitað ekki hvort raunin muni verða þannig, að hægt sé að ná einhverju til baka af þessu sístækandi gapi á milli þeirra sem mest hafa og þeirra sem hafa minnst, en er nokkru að tapa?
Mundi einhver stjórnmálaflokkur vera til í að skoða svona (og ég mundi helst hallast að því það væri þá helst VG).
Kveðja,
Lesandi

Ég þakka þetta ágæta bréf. Í grunninn er ég þér alveg sammála, nefnilega að okkar helsta mein er kjaramisréttið í þjóðfélaginu. Þú bendir á "finnsku" leiðina þar sem ökusektir ráðast af efnum viðkomandi. Í frumvarpi, sem ég lagði fram á síðasta kjörtímabili var tillaga þessa efnis. Málið náði hins vegar ekki fram að ganga. Ég myndi hins vegar ekki innleiða þessa hugsun inn í velferðarkefið og aldrei inn á sjúkrahúsin. Þar á aldrei að spyrja hvað menn eigi heldur lækna og líkna óháð efnahag. Það þýðir að heilbrigðisþjónustan á að vera algerlega gjaldfrjáls.  
Kv.,
Ögmundur