Fara í efni

NÝJA ÍSLAND?

Þótt að ég sé ekki alltaf sammála Ögmundi Jónassyni þegar kemur að málefnum þá ber ég meiri virðingu fyrir honum heldur öðrum þingmönnum vegna þeirrar staðfestu og siðferðilegu heilinda sem hann hefur alltaf sýnt. Mér finnst að þótt ýmislegt beri á mili í skoðunum okkar þá geti ég treyst Ögmundi til að gera það sem hann telur rétt, óháð því hvernig vindar blása. Slík skapgerð er dýrmæt og sem betur fer hefur hann sýnt styrk til að standa keikur þótt andbyrinn sé oft stinnur. Þegar kemur að Landsdómsmálinu þá er ég er fyllilega sammála þeim skilningi að atkvæðagreiðslan þar sem að samþykkt var að ákæra Geir, en engan ráðherra annan, hafi fært það mál úr þeim farvegi að vera rannsókn á aðkomu ríkisstjórnar og stjórnmálaumhverfisins að hruni fjármálakerfisins en í stað þess gert málið að flokkspólitískum slag. Sá slagur mun einungis ýta mönnum í skotgrafir og hvert svo sem dómsorð Landsdóms verði þá muni niðurstaðan í hugum fólks ekki snúast um raunverulega atburði heldur það hvort að það tókst að koma höggi Sjálfstæðisflokkinn eða ekki. Ég tel það víst að jafnvel þótt slík atlaga heppnist þá muni hún fyrst og fremst skaða Sjálfstæðisflokkinn í augum þeirra sem ekki styðja hann. Því er ólíklegt að það málið muni skaða flokkinn mikið í næstu kosningum. Er þetta þá "til heimabrúks"? Viljum við beita Landsdómsákvæðinu til að slaka hefndarþorsta eða til að sýnast taka til eftir sóðaskapinn. Ef fleiri ráðherrar stæðu í sömu sporum og Geir Haarde þætti mér annað uppi á teningnum. Mér fannst það dapurlegur fyrirboði um framtíð íslenskra stjórnmála eftir hrun þegar ákveðið var að rannsaka ekki gerðir eða aðgerðaleysi viðskiptaráðherra í aðdraganda hrunsins. Sérstaklega fannst mér sorglegt þegar ákveðið var að rannsaka ekki frekar hvort að satt væri að flokksformaður viðskiptaráðherra hefði beitt "flokksaga" til að reyna að stýra því hvernig ráðherra bankamála fór með sinn málaflokk. Einhvernvegin þykir mér líka ótrúlegt að fjármálaráðherra hafi ekki verið kunnugt um í hvað stefndi árið 2008. Vegna starfa minna hjá stórri endurskoðunarstofu þótti mér augljóst undir lok árs 2007 að eignir og veð bankanna í sjávarútvegi, byggingariðnaði og öðrum fjármálastofnunum myndu nánast gufa upp ef að hagkerfið yrði fyrir áföllum. Þessi skoðun var óvinsæl hvar sem ég viðraði hana og mér ekki til framdráttar. En fyrst að ég gat lesið þessar vísbendingar úr nokkrum tugum ársreikninga ársins, hvernig má þá vera að ráðherrum hafi ekki verið kunnugt um að mikið væri að? Er það ekki á ábyrgð ráðherra að þekkja sinn málaflokk? Í mínum huga átti kæran til Landsdóms að snúast um sköpun fordæmis fyrir því að æðstu embættismenn þjóðarinnar sættu ábyrgð fyrir störf sín í samræmi við skýrar réttarreglur. Ég leyfði mér að vona að sögulega niðurstaðan yrði að verkaskipting, samskipti og hreinskiptni milli ráðuneyta, ráðherra og stjórnarflokka yrðu skýrari og betri. Það var kannski óþarflega mikil bjartsýni af minni hálfu. "Nýja Ísland" virðist ennþá vera óþægilega líkt "Gamla Íslandi" og erum við þá einhverju nær að afstýra öðru eins og gerðist 2008?
Dagur Pálmar Eiríksson Mörk